The Thorvaldsens Museum Archives

Comment on 1841

[Forfatterens note i teksten] 1) Skírnarfonts þessa er getið í Sunnanp., í lsta árg. 110du bls., Fjöln. 4ða ári bls. 28—31, og mig minnir í Klausturp. Fonturinn er kominn til Kaupmannahafnar fyrir mörgum árum, og var hann geymdur í Karlottuborg ásamt fleirum smíðisgripum Alberts; þar fekk hverr að skoða hann sem vildi. Á hann eru höggnir þessir atburðir: Skírn Krists. María með barnið Jesús, og Jóhannes. Kristur blessar börnin. Þrír englar í lopti. Neðanundir englunum stendur þetta letur: OPUS HOC ROMAE FECIT ET ISLANDIAE TERRAE SIBI GENTILICIAE PIETATIS CAUSA DONÁVIT ALBERTUS THORVALDSEN A. MDCCCXXVII. Það er á Íslenzku: Grip þenna gjörði í Rómaborg og gaf Íslandi ættjörðu sinni í ræktarskyni, Albert Thorvaldsen árið 1827. Vera má, að sumum hafi ekki verið um, að sleppa dýrgripi þessum, en þegar Albert kom til Kaupmannahafnar um haustið 1838, og hann sá fontinn, furðaði hann á að hann skyldi standa þar, er hann ætlaði hann kominn til Íslands fyrir löngu, og fór hann þegar að gjöra gángskör að því, að hann irði sendur, og reit „rentukammeri” bréf um það; var síðan fonturinn sendur til Reykjavikur 1839, og er það eigi lítið fagnaðarefni Íslendingum, því vart mun landið nokkurntíma hafa eignast þvílíkan dýrgrip.

Last updated 18.11.2015