1841

Sender

Jónas Hallgrímsson

Recipient

Omnes

Recipient’s Location

København

Dating based on

Dateringen fremgår af det dokument, hvor teksten blev trykt.

Abstract

Kommentarerne til dette dokument er under udarbejdelse.

Document

ALBERTS

THORVALDSENS

ÆFISAGA,

GEFIN ÚT

AF

ENU ÍSLENZKA BÓKMENTAFÉLAGI.


KAUPMANNAHØFN, 1841.

PRENTUÐ HJÁ S. L. MÖLLER.


Hér býðst Íslendíngum ágrip æfi og athafna manns þess, er talinn er frægastur allra myndasmiða þeirra, er uppi hafa verið síðan þjóðsmiðir Forngrikkja voru á dögum; hefir orðstír hans um lánga hríð verið kunnur öllum heimi og nafn hans eins frægt og tignustu höfðíngja. Hann á ætt sína að rekja til Íslendínga, er faðir hans var íslenzkur maður, og er hann að sögn ættfróðra manna kominn frá Olafi pá. Danir kalla hann landa sinn, og hafa þeir það til síns máls, að móðir hans var frá Jótlandi; samt eru margir með Dönum er kalla hann Íslendíng; nefni jeg til þess einan Adam Oehlenschlaeger (Ölensleger), þjóðskáldið, segir hann svo í kvæði, er hann orkti um Ísland og æ mun uppi vera:

„Thor fra Island i Rom vœkker Kronion til Liv.”

Aðrar þjóðir nefna hann Íslendíng jafnan, til að mynda þjóðverjar (Friedrich de la Motte Fouqué), Svíar (Tegnér biskup) og Norðmenn; og í kvæði, sem norrænn maður orti um haustið 1838, eru þau rök færð til þess, að hann sé í ætt við Norðmenn, at Íslendíngar séu frá þeim komnir.

Albert Thorvaldsen kannast og sjálfur viðætterni sitt við Íslendínga, ber það með sér smíðisgripur sá, er hann hefir sent Íslandi. Enginn mun því bera á móti því, að það skipti Íslendínga að vita nokkuð um æfi þess landa síns, er þeir eiga frægstan, og smíðar hans. Mér þótti því gefast ágætt tækifæri til að fræða Íslendínga um þetta, er deild Bókmentafélags vors í Kaupmannahöfn ásetti sér að láta prenta smárit handa Íslendíngum, og hefi eg snúið bæklíngi, er Tíli (Thiele) prófessor ritaði um Albert Thorvaldsen árið 1837; víða hefi eg samt aukið hann og vikið frá orðunum, því sumt er það í ritlíngi Tíla, er ekki á við Íslendínga. Eg skírskota því undir þá, er borið geta saman Tíla kver og mitt, hvort eigi hafi farið eins vel á að sleppa því er eg hefi fellt úr, og hvort breytt sé til hins lakara þar sem eg hefi breytt.

Að lokum vil eg geta þess, að mér þótti nauðsyn á að lýsa einhverju snildarsmíði Alberts á prenti, svo Íslendíngar gætu fengið hugmynd um myndasmíði, er því lýst hér að aptan líkneskjum Jóns Skírara og þeirra er hlýddu tölu hans á eyðimörku, og er það talið eitt hið fegursta smíða hans. Við hefi eg og bætt lýsíngu á öðru smíði, sem að sönnu ekki er eins mikið í varið og hitt, en eg gjörði það til að sýna snild Alberts og hugvit á annarri tegund, nefnist smíði það „ástin á ýmsum aldri” eður „ástasalan”, og verði að því fundið að eg tók þetta, þá bið eg menn gæta þess, að þegar Leó páfi hinn tólfti kom í smiðju Alberts árið 1826, horfði hann lengst á þetta allra gripanna, og má af því ráða, að honum hafi fundizt einna mest til þess; fái nú páfinn ámæli af þessu, þá er mér ekki vandara enn honum.

Orðfærið á kveri þessu hefi eg vandað eptir því er eg hafði bezt vit á, samt finn eg sjálfur að mikið brestur á, að það sé svo hreint og liðugt sem það vera ætti, og hefi eg þá ekki önnur úrræði, enn biðja góða menn að virða á hægra veg.

Magnús Hákonarson.Árið 1770, nítjánda dag Nóvembers, ól kona sveinbarn í Kaupmannahöfn;I hefir hún að líkindum, jafnt og aðrar mæður, spáð því í huga sér, að nokkuð mundi verða úr barninu, en vart hafa verið önnur rök fyrir þeim hugarburði enn að það var sveinn, því foreldrar hans voru snauðir.

Faðir sveinsins hét Gottskálk Þorvaldsson, íslenzkur maður, og var myndasmiðurII við skipahróf Dana konúngs; hann átti prestsdóttur eina jótska, er hét Karen GrönlundIII.

Sveinninn var vatni ausinn og nefndur Bertel (Albert) Thorvaldsen, og hvar sem þessa nafns nú heyrist getið, hvort heldur það er á norðurlöndum eður meðal annarra siðaðra þjóða, þá er óþarfi við að bæta hvorr það eigi, því þar sem menn hafa vit á hvað íþrótt er, þar er hann eins kunnur og hann væri merkis konúngur.

Ekki varð miklu varið til menníngar sveini þessum, því foreldrar hans voru félausir.

Á því bar fyrst, að hann væri næmur á uppdrátt, því var hann sendur í íþrótta-skólann er hann var 11 ára, og þurfti eigi að leggja þar fé með honum.

Albert tók góðum framförum í skólanum, og kom föður hans það nú til hugar, að hann mundi verða svo vel að sér er stundir liðu fram, að hann gæti haft not af honum til aðstoðar við smíðar sínar; en eigi leið á laungu áður hann tók föður sínum fram, og var hann úngur að aldri er hann fór að laumast til að lagfæra smíðar hans, um leið og hann færði honum dagverð á „Hólminn”IV.

Í skólanum var Albert búinn að vera til kennslu í 6 vetur, áður menn færi að taka eptir honum fremur öðrum. Þá varð sá atburður, að hann öðlaðist verðlauna-peníng (1787), silfurpenínginn hinn minna, og var þess getið í fréttablöðum, að hann hefði skarað fram úr öðrum. Um þær mundir gekk hann til prestsins Séra Höyers, er var prófastur og prestur í HólmssóknV, átti þá að staðfesta hann um vorið, en í andlegum efnum hefir hann vart áunnið sér mikinn heiður, og lýst því fremur að hann væri, því miður, lakar mentaður í bókvísindum enn öðru. Það er ekki ólíklegt að klerkurinn hafi viljað uppörfa hann með eptirdæmi, er hann spurði hann að því einn dag, hvort hann væri bróðir þess er fengið hefði verðlaunapenínginn? og er Albert svaraði honum því, að það væri sjálfur hann, brá presti svo við, að hann skipaði honum efsta sæti í virðíngaskyni, og kallaði hann ætíð uppfrá því Monsieur Thorvaldsen; þetta hefir Alberti aldrei úr minni liðið.

Af æsku árum hans vita menn ekki annað að segja, en það mæla allir þeir er þá þekktu hann, að hann hafi boðið af sér ágæta góðan þokka, verið fríður sínum og bjartur á hár.

Tveim árum síðar enn Albert öðlaðist verðlaunapenínginn minna, hlaut hann og hinn meira, og atburða málarinnVI, prófessor Abildgaard, lagði allann hug á að kenna honum allar þær íþróttir, er menn nema í skóla þessum, en faðir hans hugði að hann nú þegar væri búinn að læra nóg, og vildi fá hann úr skólanum og heim til sín, er hann þurfti á honum að halda sér til aðstoðar. En til allrar hamíngju gat Albert bæði stundað íþrótt sína og veitt föður sínum félitlum það lið er hann þurfti, og til eru ennþá smíðar er þeir unnu að feðgar báðir samt.

Svo fór nú fram í þrjá vetur, og var það mikið lán, er Albert átti marga vini meðal hinna úngu íþróttamanna, er hvöttu hann til að iðka ment sína og lesa góðar bækur; reið honum það eigi á litlu, er hann með þeim hætti nam aðrar góðar mentir. Þegar hann var orðinn tvítugur, átti hann kost á að vinna til hins minna verðlaunapeníngs skólans úr gulli með íþrótt þeirri er hann mest hafði stundað, myndasmíðinuVII.

Vinir Alberts þekktu dug hans betur en sjálfur hann, þar þeir optlega höfðu verið vottar þess, er þeir voru allir saman, að hann smíðaði allsháttaðar myndir með snildar hagleik. Þeir eggjuðu hann nú með öllu móti, því hann hafði eigi þor til að gjöra tilraunina. Nú var honum fengið verkefnið, er lesa má í Makkab. bókar 3ja K. 25— 26 v., var hann þá lokaður inni einn í stofu, en svo lítt treysti hann sér, að hann laumaðist út og ofan bakstiga hússins, en til allrar hamíngju mætti hann á leiðinni einum skólakennaranum, er hvatti hug hans og kom honum til að hverfa aptur. Þegar smíði þessu var lokið, var Alberti dæmdur verðlaunapeníngurinn, og auk þess ávann það honum öbluga aðstoð Reventlóvs stjórnarherra, ágœts manns; veitti hann Alberti jafnan í hina næstu 6 vetur færi á að æfa sig í íþrótt sinni. Fyrsta dag Júní mánaðar 1791 tók hann til smíðis þess, er ávann honum gullpenínginn, og táknar það Helíódórus, er hann var rekinn útúr musterinu.

Tveim vetrum síðar átti hann að vinna til hins meira verðlaunapeníngs úr gulli, og þá var hann ekki huglítill sem hið fyrra skiptið, og gjörði hann þá lágmyndir úr leiri; var verkefnið atburður sá, er getið er í postulasögu Lúkasar guðspjallamanns, er Pétur læknaði hinn limafallssjúka við musterisdyr. Fyrir þetta voru honum og dæmd verðlaunin, og var honum þar á ofan heitið fé, til að ferðast um önnur lönd í þrjá vetur; en þar menn álitu honum henta að fresta ferðinni um nokkra vetur, þá var honum fengið fé til viðurværis, 100 Kúrant-dalir á ári hverju í 2 ár, svo hann gæti unnið það upp er á vantaði í skólamentun, er hann þótti skorta eigi lítið í þeim efnum. Þetta færði hann sér vel í nyt, og jafnframt og hann nam það, er hann brast á, af jafnöldrum sínum, stundaði hann íþrótt sína með mikilli alúð. Þess er áður getið, að Reventlóv greifi fékk honum margt að starfa; nú tók Abildgaard, sá er fyrr var nefndur, að nýta sér hagleik hans til ýmsra smíða í höll Friðriks konúngsbróður, á Amalíuborg. Hallarstiginn og nokkrar stofur bera þess ennþá menjarVIII.

Árið 1796 átti Albert þá loks að fara að heiman og var ferðinni heitið til Ítalíu; þángað halda optastnær úngir íþróttamenn og dvelja þeir þar nokkra vetur, til að taka eptir smíðum fornaldarmanna. Þegar ferðina átti að hefja, varð Albert veikur, svo hann treystist eigi til að fara landveginn; það ætluðu og vinir hans, að hann væri of lítt reyndur til þess, og mundi eigi heldur kunna túngumálin til hlýtar; enda bar þá svo vel í veiði, að verið var að búa herskip, er halda átti til Miðjarðarhafs, og þótti því hagkvæmast, að Albert tæki far með því, svo hann kæmi sem fyrst þángað er hann átti. Fararleyfi var auðfengið. Albert var ættrækinn, og rann honum það nú til rifja, að verða að skilja við föður sinn og móður bæði fátæk, og þá er hann kvaddi þau, lét hann þeim í ljósi rækt sína, og gaf þeim að skilnaði gullpenínga eigi allfáa, er hann hafði haldið saman af smíðalaunum sínum.

Tuttugasta dag Maímánaðar 1796 skildist Albert við fósturjörð sína, og lá það fyrir honum að sjá hana eigi aptur fyrr enn henni var orðinn heiður og sæmd að honum.

Sjóleiðin var eigi eins hagkvæm og menn hugðu: fyrst kríngsólaði skipið víða um Englandshaf, og svo leið sumarið til hausts, uns það loks um veturnætur náði Miðjarðarhafi; þá híngað var komið, var siglt fram og aptur á millum Malteyjar og Ræníngjalandanna (Algier, Túnis og Trípólis eður Þríbirgi á Suðurálfuströndum), og þótt Albert væri friðgjarn maður, þá hlaut hann þó að fara í hernað á móti Serkjum. Eptir ýmsar þrautir á ferð þessari tók Albert það ráð, að hann lét flytjast á byrðingi (þiljulausum), frá Malteyu til Alhafnar (Palermo) á Sikiley, þaðan komst hann loks til meginlands og lenti í Nýborg (Neapel). Í borg þessari eru glaðværðir miklar og skemtanir, en Albert undi þar ekki, bæði af því að heilsa hans var biluð á ferðinni, og hinu, að hann kunni illa að mæla á ítalska túngu. Nú átti hann fáar dagleiðir til Rómaborgar, en svo var mikil ógleði hans, að vart mun annað hafa hamlað því, að hann hyrfi aptur, enn að farið vantaði, og hefði það orðið óbætandi tjón, bæði fósturjörðu hans og ment þeirri, er hann hefir stundað, en svo fór betur að hann fann til kinnroða yfir því, að hann hefði látið hugfallast, og fám dögum síðar enn hann kom við land, hélt hann til Rómaborgar, kom þar 8da dag MartsmánaðarIX, og lág það fyrir honum að verða þar eins nafnkunnur og páfinn sjálfur.

Albert fœrði lærðum manni dönskum, er Zóega hét, bréf frá Kaupmannahöfn, og hlýddi hann heilráðum manns þessa og góðri tilsögn jafnan í fyrstu, er hann sýndi honum smíðar sínar, til að heyra hvernig honum líkuðu þær; en Zóega var of vandlátur og fann hann ætíð nokkuð að öllu þá tók Albert það til bragðs, að hann lézt ekki vinna og starfaði þá að smíðum sínum tilsagnarlaust um nætur, eður þær stundir dags, er enginn gat orðið var við; þessum uppteknum hætti sínum kunni hann mjög vel, og svo var hann starfsamur, að fáir munu trúa því hve miklu hann fékk afkastað. Þá var og hugur hans orðinn allur annarr enn áður; hann segir sjálfur, að þá hafi snjóinn leyst af augum sér, og þetta hið nýa líf lýsti sér ekki að eins í smíðum hans, heldur einnig því, að nú fann hann með sér innilega laungun til að nema svo mikil vísindi, er til þess þyrfti, að hann irði með öllu frjáls og haptlaus í ment sinni. En þrjú ár eru ekki lángur tími, þegar svo mikið þarf að nema; honum ægði að hugsa til þess, að nú væri dvöl hans í Rómaborg brátt á enda, og hann ekki búinn, að smíða neinn þann grip, er að hans álitum sjálfs væri svo vandaður, að hann gæti sent hann heim til Danmerkur til merkis um framfarir sínar.

Í Danmörku hældu allir gripum þeim er hann var búinn að senda, þó þeir væru minnst af því er hann hafði smíðað, en sjálfur var hann svo vandlátur, að hann jafnan braut höfuð af myndum þeim er algjörðar voru, og fól brotin svo einginn sæi þau; en hafi myndir þær, er hann þannig fór með, verið eins vandaðar og aðrar er hann smíðaði um sömu mundir, og enn eru til, þá hefir honum eigi þurft að þykja mínkun að þeim.

Þessi barátta Alberts við sjálfan sig og vandvirkni hans eru skýlausir vottar þess, að lengri vegur lá að takmarki því, er hann átti að að komast, enn því, er flestir ná aðrir. Hann ætlaði sér nú loks að smíða grip þann, er fengi til hlýtar flutt mál hans í Kaupmannahöfn, og tók hann sér til efnis úr Grikkja sögu kappann Jason, er hann heimtir gullreifið í ókunnu landi.

Mynda smiðurinn hnoðar myndina fyrst úr blautum leiri, síðan lætur hann gipsX utanum hana til að fá mótið, svo steypir hann gipsi í það, og er þá komin gipsmynd í stað hinnar úr leiri, sem er miklu brothættari, og síðast höggur hann marmara eður steypir málm eptir gipsmyndinni, eptir því sem hann er um beðinn. Þannig fór nú Albert að smíða Jason sinn og gaf hann honum venjulegan karlmannsvöxt í fyrstu, og í Aprílmánuði 1801 lauk hann við leirmyndina.

Kunnáttan ein er eigi einhlýt til þess að skarað verði framúr öðrum eins smíðum og þeim er í Rómaborg eru, þar sem svo mikill fjöldi er ágætra forngripa, til þess þarf og lán. Svo fór og, að menn veittu nýsmíði Alberts eigi mikla eptirtekt, hann fór því eittsinn og virti það lengi fyrir sér og mölvaði að lokum, síðan fór hann að hugsa til heimferðar sinnar og olli það honum eigi lítillar ógleði. Zóega, sá er fyrr var nefndur, átti og að snúa heim aptur, fór það svo að líkindum, að Albert réðist í för með honum, og varð því að bíða vorsins, þarsem hann ella hefði byrjað ferð sína um haust.

Albert hafði nú í lángan tíma fundið með sér, að í honum bjó nokkuð er varð að koma fram, hann tók því til að smíða Jason að nýju, og stóð þá önnur leirmyndin af honum í smiðju hans skömmu eptir nýár 1803, og var nú kappinn orðinn allur vöxtuglegri enn mennskir menn.

Brátt varð þetta hljóðbært, fóru þá margir að skoða myndina og undruðust allir þeir er sáu, kváðu menn líkneskju þessa hafa mest snið af smíðalagi Forngrikkja, allra þeirra mynda er í kristni væri gjörðar. Allt lenti þó við lofið, og lá við að söm yrðu afdrif þessarar myndar og hinnar fyrri; þó komst Albert svo lángt, að hann steypti nú gipsmynd, og hugði að láta þar við nema, uns hann fengi far handa henni til Danmerkur.

Um vorið hirti hann saman farángur sinn, og einn dag kvaddi hann Jason sinn, átti þá að leggja upp að morgni. Þegar er morgnaði kom ferðavagn að hússdyrum Alberts, og var kista hans bundin aptaná, tálmaði þá ekkert förinni utan það, að íþróttamaður þjóðverskur, er verða átti samferða, var eigi kominn. Hann kom þó að lokum, og kvaðst eigi geta farið þann dag, er hann átti eptir að ná leiðarbréfi sínu; ferðinni var því frestað til næsta dags.

Þá varð sá atburður, að enskum kaupmanni, er hét Tómas Hope (Húp), var vísað á Jason þann, er svo mjög var umrætt; Albert var í smiðju sinni er maðurinn kom, sýndi honum smíðið og fannst hinum mikið um. Kaupmaður spurði hann, hvað líkneskja þessi mundi kosta, ef hún væri höggvin í marmara? Sexhundruð SekkínaXI kvað Albert, og tók hið minnsta til, er honum þótti það ærið lán, ef honum hlotnaðist að höggva hana. „Það er oflítið,” mælti íþróttavinurinn: „eg gef þér 800 og greiði þér svo mikið nú þegar, að þú getir tekið til smíðannaXII.

Með þessum atburði ávann Albert það, að hann gat dvalið lengur í Rómaborg, honum hlotnaðist og þar á ofan það, er vera kann að minna þyki í varið, en er ekki svo: nú varð víðrætt um hann, og orð það er af honum fór um lönd öll olli því, að honum gafst optar færi á að skara fram úr öðrum smiðum í íþrótt sinni.

Nú er orð var komið á snildarhagleik Alberts, þá varð það brátt, að auðmenn og helzt ferðamenn er við hann kynntust í Rómaborg, fengu honum margt að smíða, og vörðu til þess miklu fé. Í Danmörku bjuggust menn við heimkomu hans á ári hverju, og mun það hafa ollað því, að hann var eigi beðinn um neinn grip þaðan fyrr enn um árið 1807. Svo stóð á, að frú Schimmelmanns greifa ætlaði sér að gefa Brátröllaborgarkirkju á Fjóni skírnarfont, gjörðust þá ættíngjarXIII frúarinnar á Ítalíu til að fela Albert á hendur að smíða hann úr hvítum marmara. Nokkrum árum síðar kom fonturinn, og stendur hann nú í kirkjunni. Allir dáðust að smíði þessu, og því kom Albert til hugar að gjöra annann font með sama lag; á þenna font er höggvin látína, er svo segir: að smiðurinn sendi hann Íslandi, ættjörðu sinniXIV.

Nú fór Dana konúngur brátt að láta Albert smíða fyrir sig marga gripi og mikla, meðal þeirra eru 4 lágmynda smíðar krínglóttar, er prýða Kristjánshöll framanverða. Auk þessa tókst hann á hendur að smíða fyrir höfðíngja og ríkismenn á öðrum löndum, og uxu nú annir hans mjög, með því jókst honum og virðíng dag frá degi, og vart hafa svo liðið tvö misseri síðan og fram að þessari stundu, að eigi hafi honum verið send riddarabönd og nafnbætur frá ýmsum höfðíngjum og listaskólum, og á enginn íþróttamaður eins margt af þesskonar hlutum og hann.

Vera má að einhverjum kynni að þykja Albert hafður í ofmiklum hávegum, þar hann eigi sér það mest til ágætis, að hann er hagari á myndasmíði enn aðrir menn; þá er svo kynnu að mæla biðjum vér gæta þess, að bæði íþróttir og vísindi eiga það vitni skilið, að engu er fremur að þakka eblíng mentunar og framfara mannkynsins enn þeim. Auk þessa mættu allir þeir, er vita hvílíkir gripir liggja eptir íþrótt þessa, dáðst að snild og hagleik Alberts, er þeir sjá hann einan megnan um, að smíða eins fagra gripi og Forngrikkir einir fengu áður gjört, þar sem menn ætluðu um margar aldir, að engum manni mundi takast það; og þakka mættu menn Drottni, að hann hefir gefið Alberti vit og hamíngju til að megna það, er svo margir smiðir á mörgum öldum reyndu til að vinna og máttu ekki.

Sá sem ritar sögukorn þetta ætlar, að það mundi um of draga huga lesandans frá æfi Alberts, ef hér væri farið að telja smíðar hans eptir aldri þeirra, og lýsa þeim greinilega; þykir því betra að hnýta þeim aptaní söguna, má þá og ljósar sjá, hve margt og mikið smiðurinn hefir unnið.

Svo var það margt er hann var um beðinn með ári hverju, að menn fóru nú að halda að hann mundí aldrei fá tóm til að snúa heim aptur. Þó segja Danir, að hann hafi jafnan fýst til Danmerkur, þótt ekki væri nema til að dvelja þar stutta stund.

Árið 1811 fannst hvítur marmari í Noregi, og hlökkuðu Danir nú til að Albert kæmi heim, er þeim þótti það svo ágætt, að hann smíðaði úr norskum marmara, en ekki ítölskum eða grískum. Kristíán konúngsefni ritaði honum þá bréf þessa efnis, og lýsti svar Alberts því, að hann væri þess eigi ófús, að fara til Danmerkur. Samt var honum það ekki hægt um þær mundir, því bæði var það, að hann hafði skuldbundið sig til að smíða svo margt er hann átti ólokið við, og hitt, að hann var kennari í íþróttaskólanum Sti. Lúkas. Þó leit svo út að lokum, sem hann mundi fá tómstund til að fara snögga ferð, en þá varð sá atburður er tálmaði förinni, að á honum þurfti að halda í þjónustu Napóleons, og varð það eigi til lítilla heilla Danmörku, og fékk öllum íþróttamönnum mikillar gleði.

Napóleon var þá keisari og réði fyrir Ítalíu, vildi hann láta búa sér höll í Rómaborg, og kaus til þess sumarhöll nokkra er Páfi hafði átta. Albert var um þessar mundir að hugsa um ferð sína, og gaf sig því ekki fram til að fá nokkuð að starfa, og var það þó margt er myndasmiðir áttu að gjöra við höllina; Alberti bauðst ekkert, þar hann einsog allir þeir er framúr skara, átti marga öfundarmenn. Samt fór svo, að þá voru ekki eptir nema þrír mánuðir af tíma þeim, er Napóleon hafði sett yfirsmiðnum, þá sá hann (yfirsm.), að hann mundi eigi komast vel af, nema hann nyti aðstoðar slíks meistara og Albert er, kraup hann því á kné fyrir honum, og bað hann að smíða spjöld með hálfupphleyptum myndum, og átti að prýða með þeim innanvert alla fjóra veggi einnar stofunnar. Þótt tíminn væri naumur, tókst Albert þetta á hendur, og hjó söguna af Alexander enum mikla, er hann fer sigri hrósandi inn í Babýlon; lengdin á smíðinu átti að vera níu álnir og tuttugu.

Allir undruðust að Albert skyldi takast smíði þetta á hendur, er tíminn var svo naumur, var þá þess að vænta, að þeir er við hann möttust mundu vitja um það, til að geta ámælt honum, að hann annaðtveggja hlyti að gánga á heit sitt, eður hroða svo af smíðinu, að þeim tækist betur að þessu sinni enn honum, er þeir höfðu nægan tíma, en hann svo örstuttan. Svo fór, að þeir einnig í þetta skipti urðu að lúta í lægra hald fyrir Alberti, því Alexander hans hrósaði sigri í ákveðinn tíma, og var þvílík snild á smíði þessu, að enginn hefir gjört líka þess, síðan fornsmiðir Grikkja voru á dögum. Brátt varð rætt um smíðið um alla norðurálfu heims; öllum íþróttavinum í Danmörku þótti þjóðarmáli gegna, að meistarasmíði þetta væri höggið í marmara, og sett í aðalhöll Dana konúngs, og þegar voru menn farnir að safna fé til þess, er konúngur falaði það sjálfur að meistaranum; nú er dýrgripur þessi híngað kominn og þó eigi fullbúinn, er Albert hefir áskilið sér, að leggja á hann síðasta smiðshöggið er hann kæmi sjálfurXV. Ári síðar og hann lauk við smíðið í keisarahöllinni í Rómaborg, hafði hann undir aðrar tvær, er urðu sannnefndir máttarstólpar hásætis Dana konúngs í Kristíánshöll. Þeim var að sönnu annað ætlað í fyrstu, en tímarnir breyttust svo að þannig fór. Svo stóð á, að stjórnarherrar Pólínalands höfðu falað að Alberti kvennmyndir tvær úr marmara, er halda skyldu (eyr-) spjaldi á milli sín; á spjaldið átti að rista huggunarorð þau, er Napóleon keisari mælti við sendimenn Pólínamanna, er þeir báðu hann að reisa við aptur ríki þeirra; en þegar Albert hafði lokið smíði þessu (1813), var málefni Pólínamanna komið í það horf aptur, að eigi þurfti á þvílíkum gripum að halda; þessar hinar fögru líkneskjur stóðu því í smiðju Alberts, uns Danir keyptu þær að honum 1818, og halda þær nú himni yfir hásæti Dana konúngs.

Albert smíðaði marga snildargripi um þessi árin, og máttu þeir er litu ætla, að hann væri nú kominn svo lángt í ment sinni sem auðið væri, og honum mundi smámsaman fara aptur, er komið væri að efri árum. Samt eru liðnir síðan 20 vetur, á þeim öllum hefir hagleik hans eigi förlast hið minnsta, heldur hefir hann jafnan tekið framförum, án þess nokkurntíma hafi orðið vart við apturför vits eður handa. Opt reit hann vinum sínum í Danmörku, að sín væri þángað von, samt drógst það jafnan, og fyrst gjörðist aðdragandi til þess að liðnu árinu 1817. Svo stóð á, að Sveissar báðu hann að reisa minníngarvarða landsmönnum þeirra, er vörðu Tilleríur (Tuileries), höll Frakka konúngs, í stjórnarbiltíngunni miklu (1792), og féllu þar við góðan orðstír. Albert smíðaði þá ljón, er deyr af sárum sínum, og er hann var búinn að senda það frá sér, hóf hann ferð sína til Danmerkur, og ætlaði um leið að skoða stað þann, er ljónið átti á að standa. Hann fór frá Rómaborg 14da dag Júlí-mánaðar 1819, og þar hann kom í ítalskar borgir eða þýðskar, veittu æðri stétta menn og lægri honum slíkar virðíngar, að vart mun nokkrum listamanni svo hafa verið tekið fyrr eða síðan. Á leiðinni hélt hann til Stuttgarðs, höfuðborgar í Vurtembergi, og ætlaði að sækja þar heim Dannecker, frægan myndasmið; þá bar svo við, er hann var kominn í nánd við borgina og hafa átti hestaskipti, að úngur maður rann að vagninum, uppgefinn af þreytu og mæði, og bað vagnmann leyfis að sitja við hlið honum framaná vagninum inn að borgarhliði; Albert leit við manninum og bauð honum að setjast inní vagninn og við hlið sér, og þá tók hinn að segja frá því, hvað valdið hefði gaungu sinni; hann kvaðst geta frædt hann á þeirri nýlundu, að von væri í Stuttgarð hins víðfræga þjóðsmiðar Alberts Thorvaldsens, og sig fýsti að sjá hann þó eigi væri nema í svip, og því hafi hann nú verið að flýta sér inn í borgina. Því má nærri geta, að gaman hafi orðið úr, er Albert að lokum sagði til sín; maðurinn var einn af lærisveinum Danneckers, og fylgdi hann Alberti til hans.

Um Mikjálsmessu leiti kom Albert að landamærum Danmerkur; í Flensborg og Altónu var honum tekið með mikilli viðhöfn, þaðan hélt hann til Fjóns og hvíldist þar um nokkra daga, ýmist á Brátröllaborg eða Sanderumgarði. Milli nóns og miðaptans 3ja dag Októbers, er þá bar uppá Sunnudag, leit hann Kaupmannahöfn aptur, eptir 23ja ára fjærvistir. Margar breytíngar voru orðnar síðan hann fór þaðan, og þó mestar á kjörum hans sjálfs. Hjartaþel hans við vini og kunníngja var samt hið sama og verið hafði; hvorki frægð hans eða virðíngar, sem hann þáð hafði í útlöndum, höfðu sett í hann dramb eður þótta. Honum var fenginn bústaður í Karlottuhöll, og er hann sté af vagni og leit aptur hús það er hann hafði í verið, og numið fyrstu undirstöðvar mentar sinnar, þá komst hjarta hans við. Dyravörð hússins leit Albert fyrstan heimamanna þeirra er hann þekktu, og jafnskjótt og hann kom auga á hann, fleigði hann sér í faðm honum og mynntist við hann. Margir fornvina hans komu þá til hans, og nokkurra mátti hann sakna, er eigi var auðið að sjá framar. Samt bættust honum nýir vinir, er margir menn, sem eigi höfðu séð hann fyrr, sóktu hann heim og spjölluðu við hann, sem væru þeir gamlir kunníngjar hans, þar þeir höftu unnt honum í lángan tíma fyrir það, að þeir töldu Danmörku svo mikinn sóma að honum. Í Kaupmannahöfn voru Alberti haldnar veizlur með mikilli viðhöfn, bœði á íþróttaskólanum og í öðrum samkundum; í skothúsi borgarmanna var haldin veizla fjölmennust, voru þar súngin kvæði og fluttar ræður. Í fyrstu undi hann þessu sæmilega og gladdist, því að menn vottuðu honum ást sína og virðíngu á svo margan hátt; fór hann að lánga til að starfa þegar stundir liðu fram, lét hann þá búa sér smiðju, og gjörði fyrst af öllu höfðamyndir konúngs og drottníngar. Konúngur fól honum nú á hendur að smíða ýmsar líkneskjur í Maríukirkju í Kaupmannahöfn, var hið helzta mynd Krists og postula hans, einnig Jóns Skírara er hann talar á eyðimörku, og annað fleira. Smíðar þessar voru svo mikilhæfar, að Albert gat ekki starfað að þeim í Kaupmannahöfn, varð hann því að láta þær bíða þess hann kæmi til Rómaborgar aptur, og vann hann þar að þeim síðan í nokkur ár; hann tók samt í Kaupmannahöfn til tveggja smíða annarra, er fara áttu í kirkju þá er áður var getið, tákna þær skírn Krists í Jórdan og kvöldmáltíðina helgu. Í Kaupmannahöfn dvaldi hann nærfelt tvö misseri; allir unnu honum þar hugástum er þekktu hjartaþel hans, allir dáðust að honum er þekktu hagleik hans, og þeir virtu hann allir er sáu hvílíkur sómi var að honum. Nærri var hann búinn að týna lífinu er hann sneri héðan aptur; hann hafði tekið sér ferju í Nýstað á Láglandi yfir til Rauðstokks á Þýðskalandi, en veður brast á um nóttina, svo bátinn rak fyrir stormi fram í dögun; þá bar að hafnsögumenn, og komu þeir ferjunni þángað er ætlað var. Þaðan hélt Albert til Berlínar, höfuðborgar Prússalands, og tók konúngur honum forkunnar vel, og eins gjörði annað stórmenni; þaðan fylgdu margir íþróttamenn honum til Potsdamms. Í Dresden á Saxlandi dvaldi hann í viku, og hermdu fréttablöðin um þœr mundir viðtökur þær er hann fékk, með veizlum og annarri viðhöfn; þaðan hélt hann til Varskár á Pólínalandi, og átti hann erindi við yfirmenn borgarinnar um heiðursvarða, er hann átti að smíða; annarr átti að vera yfir höfðíngjann Póníatóvsky, er týndi lífinu í fljóti nokkru til þess að reynast trúr sambandsmönnum fósturjarðar sinnar; hinn átti að reisa í minníngu Nikulásar Kóperníkusar stjörnuvitríngs. Svo hittist á, er Albert kom til Varskár, að Alexander var þar kominn Rússakeisari, bauð hann þjóðsmiðnum til sín, og vottaði honum hina mestu sæmd og virðíngu; menn báðu hann þess að gjöra höfuðsmynd keisarans, og sat þá Alexander frammi fyrir honum, svo opt sem þurfti, með beran háls og bríngu, til þess hann gæti gjört myndina sem líkasta; og er Albert var búinn, þág hann að smíðalaunum fíngurgull sett demöntum, og einn dag er hann var veikur sendi Alexander honum lækni sjálfs síns. Að skilnaði tók keisarinn hann í faðm sér og minntist við hann einsog jafníngja sinn. Í Kraká var falað að Alberti þriðja smíðið, og var það heiðursvarði yfir pólskan greifa og herforíngja, er Pótokky hét, og féll 26 vetra gamall í LeipsigarbardagaXVI. Nokkrum dögum síðar kom hann til Troppár, og var þar höfðíngjafundur; veitti Frans Austurríkiskeisari honum ágæta viðtöku, og var Metternikk „fursti” látinn fala að honum heiðursvara yfir Schwarzenberg, höfðíngja er þá var nýlátinn. Síðan hélt Albert áfram ferð sinni, er var sannnefnd sigurhróssför, og til Vínar; þegar hér var komið, var í skyndíngu sent til hans frá Rómaborg með þau tíðindi, að í híbýlum hans væri hrapað lopt með mörgum líkneskjum, og væri þeim spillt öllum, hann reið þá nótt og dag og létti eigi fyrr enn hann kom til Rómaborgar, sá hann þá að tjónið var raunar eigi svo mikið, sem menn höfðu ætlað.

Albert var orðinn leiður á veizlum þeim öllum og sællífi er hann hafði hlotið í að lifa á ferðinni, og varð hann nú feginn því, að mega setjast að í kyrð og spekt heima, og taka til vinnu, því lífi kann hann bezt, og trúir því enginn, sá er eigi hefir til hans komið í Rómaborg, hve einfalt viðurværi hans er, og hve frábitinn hann er allri viðhöfn og sællífi; að líkindum kemur það til af því að hann vandist eigi slíku í æsku sinni, og hefir eigi síðar haft tóm til að gefa sig við því, er hann ætíð hefir haft ærið að sýsla.

Með Alberti hafa jafnan verið úngir menn, er fá tilsögn af honum, og smíða það er hann býður þeim, hverjum eptir hans mætti. Jafnskjótt og hann var heim kominn þyrptust þeir að honum, og báðu hann segja sér frá öllu því, er að honum var falað á ferðinni, og hvað þeir mættu við búast að fá til sýslunar; hann sagði frá öllu og ægði þeim nú í augum, því svo var það margt, að menn bjuggust vart við að honum mundi endast aldur til að ljúka því af öllu. En það eru fyrn er röskur maður fær unnið, er hann notar vel tímann og hefir góða liðsmenn. Sjálfur vann Albert jafnan hið vandamesta, og það er að gjöra leirmyndinaXVII, og segja fyrir smíðunum; á hinu lét hann liðsmenn sína reyna sig, og fengu þeir með þeim hætti traust á sjálfum sér, og tóku jafnan góðum framförum. Nú tók hann til að smíða það er Pólínamenn höfðu falið honum á hendur, og hitt, er fara átti til Danmerkur. Ekki létu öfundarmenn hans hann heldur kyrran að þessu sinni. Þeir létu sér um munn fara, að hann mundi vart vinna sér til sæmdar á gripum þeim, er gjöra átti fyrir Danakonúng, þar hann ekki væri „smiður kristinn”; ætluðu þeir hann gæti eigi smíðað líkneskju manna úr kristnisögunni eður frásagnir, er hann hafði ekki borið það við áður utan á smámyndum. Albert gjörði þeim kinnroða jafnt og áður, því allir máttu undrast fegurð þá er á var líkneskju KristsXVIII og postula hans og Jóns Skírara og áheyrenda hans; gjörði hann dýrgripi þessa á örstuttum tíma, og eru þeir einir fegurstir smíða hans. Í fyrstu voru líkneskjur þessar myndaðar úr leiri, sem fyrr er getið, og síðar úr gipsi, og eru það gipsmyndirnar er nú standa í Maríukirkju. Nokkrum vetrum síðar voru líkneskjurnar höggnar í marmara og sendar til Danmerkur. Þess ber að geta, að annarr er háttur enn tíðast er á myndum þeim, er tákna Jón skírara og áheyrendur hans, er hann talar á eyðimörku; þær eru ekki lágmyndir (basreliefs), heldur eru þœr lausar myndir 16 að tölu, og mun þeirra síðar getið í viðbæti hér að aptan.

Um þær mundir er Albert vann að smíðum þessum (1823) varð sá atburður, að barn var næstum orðið honum að bana. Það er siður pápiskra manna, að þeir bregða á leik eptir föstuna, er bæði þykir laung og leið, og fagna páskahátíðinni með gleðilátum, skjóta þeir þá um laugardagskvöldið af byssum og pístólum, bæði á strætum úti og inni í húsunum, útum dyr og glugga. Matmóðir Alberts átti son er var barn að aldri, hann hafði tekið eptir því, að pístólur tvær héngu á vegg í stofu hans, og bað hann ljá sér þær til hátíðarinnar; Albert greip aðra þeirra og ætlaði að vita hvort þær væru hlaðnar, frá því er hann bar þær á ferðinni, og á meðan seildist sveinninn eptir hinni, hleypti úr henni, skotið hitti Albert og hann féll til jarðar; til allrar hamíngju var sárið eigi mikið, og er menn sáu það að honum var engin hætta búin, sagði lýðurinn að kraptaverk væri orðið, þareð heilög drottins móðirin hefði eigi viljað láta barnið valda svo miklu tjóniXIX.

Þá er lokið var smíðunum fyrir Danmörku og Pólínaland, var Alberti falið á hendur að gjöra mikinn heiðursvarða yfir Píus 7da páfa, er þá var nýlátinn, átti að reisa hann í Péturskirkju í Rómaborg, og er hún aðalkirkja pápiskra manna. Það er forn siður, að reisa í kirkju þessari minnisvarða páfanna, og hefir smíðið jafnan verið falið á hendur mestu þjóðsmiðum Ítalíu. Nú hefði það mátt þykja íhugunarmál, hvort hlýða mundi að láta Albert gjöra þetta, þar hann er maður lúterskur einsog vér, og pápiskir menn kalla oss illa kristna; en ráðgjafar páfa möttu þjóðsmiðinn svo mikils, að þeir kváðu það litlu varða hvorrar trúar hann væri, og hét sá Consalvi, kardínáli, er mest studdi mál þetta. Albert gjörði líkneskju páfa risavaxna, lætur hann sitja í hásæti og blessa lýðinn; á aðra hönd stendur kona er táknar kristinn mátt, og önnur á hina, er táknar kristna speki, og auk þess eru þar tveir einglar. Varði þessi er úr marmara, og stendur í Péturskirkju. Þá smíði þessu var að eins lokið bað Bæara konúngur Albert, að gjöra varða yfir leiði Leuehtenbergs hertoga, er var stjúpsonur Napóleons keisara og hraustur herforíngi; heiðursvarðinn er úr marmara, og stendur hann nú í Sti. Mikjálskirkju í Munken, höfuðborg Bæaralands. Lengi hafði verið mikil vinátta með þeim Alberti og Lóðvík, er nú er konúngur á Bæaralandi; hófst vinátta þeirra áðurenn Loðvík kom til ríkis, og hefir hún haldizt síðan; hefir konúngur jafnan vottað hana með því, að hann hefir falað að Alberti margar smíðar, og beðið hann jafnan að setjast að á Bæaralandi, og mundi honum óvíða betur fagnað. Um árið 1829 ferðaðist Loðvík Bæara konúngur víða, og dvaldi hann þá um hríð í Ítalíu. Meðan hann sat í Rómaborg var Albert jafnan með honum, og bæri svo við að hann einhvorn dag sæti heima, þá fór konúngur til hans, og einn dag hitti hann Albert í smiðju, krækti hann þá riddaranisti um háls honum og mælti: „kappinn fær laun sín á vígvellinum, en þjóðsmiðurinn á meðal gripa sinna!“ Ári síðar fór Albert til Munkenar, og hitti þá svo á að konúngur lá veikur; þar menn vissu að konúngnr mundi verða glaðari ef hann sæi Albert, þá var honum fylgt inn í svefnhúsið, og er konúngar leit hann, varð hann frá sér numinn af fögnuði og mælti svo: „vaki jeg eða er mig að dreyma? er Albert Thorvaldsen kominn til Munkenar?“ og þótt konúngur lægi veikur voru veizlur búnar og mikið við haft, bæði í höll konungs og annarstaðar. Í dansleik, er haldinn var í höllinni, sté Albert pólskan dans með drottníngu, og næsta dag eptir að hann kom gengu ræðismenn til hans hátíðagaunguXX og fluttu honum kveðju borgarmanna. Lærðir menn og íþróttamenn héldu honum fjölmenna veizlu í ljómanda húsi, er skreytt var allskonar myndum og uppdráttum til heiðurs honum, fluttu menn þar ræður og kvæði með hljóðfærasaung, og kvöddu hann sem konúng í ríki íþróttamanna. Stundum fékk hann eigi tóm til að sofa um nætur, og eitt sinn var hann vakinn af fjölmennu saungmanna félagi laungu eptir miðnætti, og flutti það honum kvæði. Í Munken dvaldi hann nokkra mánuði, og að skilnaði bað konúngur hann að smíða líkneskju á hestsbaki, er tákna skyldi Maximilían kjörfursta Bæaralands; smíði þetta er af málmi gjört, og stendur nú á Vittelsbakka – torgi í Munken.

Svo hefír Albert mælt síðan, að sig hafi fýst til Danmerkur, er hann var kominn handan yfir fjöll þau, er skilja Þýzkaland og Ítalíu, og eigi skorti annað enn að bréf það næði honum, er Kristján konúngsefni reit honum til Munkenar, en hann fékk það fyrst er hann var heimkominn aptur til Rómaborgar. Enn átti hann sem áður margt að vinna, og með ári hverju voru falaðar að honum nýar smíðar; auk þess sem áður er talið átti hann nú að smíða heiðursvarða yfir Bretaskáldið mikla, Byron (Bæron) lávarð, og annann yfir Conradín, er var síðastur keisara af Hóhenstáffa ætt, ætlaði konúngsefnið á Bæaralandi að láta reisa hann í Neapel. Síðar föluðu borgarmenn í Maynz á Þýzkalandi að honum minningarvarða yfir Jóhann Guttenberg, er fyrstur fann upp bókaprentun, og Stuttgarðsmenn báðu hann um heiðursvarða yfir Friðrik Schiller, skáldið.

Nú fór Alberti að verða um það hugað fremur enn áður að hætta smíðum, áðurenn kraptar hans tækju að hnigna, og ásetti hann sér nú að takast eigi fleiri smíðar á hendur. Það kom ekki til af því, að hann fyndi með sér nokkurn sljóleik, eður það mætti á smíðum hans sjá að hann var kominn á efri árin, heldur hinu, að honum þótti hlýða, er hann íhugaði kjör sín, að lúka smíðum þeim er hann hafði heitið að gjöra, og bæði voru margar og miklar. Albert hefir nú dvalið 40 vetur í Rómaborg, og þótt hann ekki hirti um að safna munum og eignast hús eður aðra fasteign, þar hann jafnan hefir haft íveruhús sitt að leigu, og verið á vist með öðrum, þá hafa þó smámsaman safnast umhverfis hann margir munir, bæði smíðar hans sjálfs og aðrir gripir fornir og nýir. Margir kynnu ætla, að smiðir gætu eigi átt margt eptir af gripum sínum, er þeir selja þá jafnan; en þess ber að gæta, að því er ekki svo varið hjá myndasmiðum, og sízt hjá Alberti. Þá er hann var orðinn svo efnaður, að hann mátti einu gylda, hvort nokkurr vildi eður ekki láta höggva í marmara gripi þá er hann gjörði, án þess um væri beðið, þá lét hann opt gjöra það sjálfur og geymdi svo gripina, þar hann gilti einu hvort þeir yrðu keyptir eður ekki. Það er og annað, að hann hélt jafnan gipsmyndinni sjálfur, er hann seldi marmaramyndina; nú eru smíðar hans orðnar 200 að tölu auk höfðamynda, sem eru mun fleiri, og má nærri geta, að nokkuð muni fara fyrir þessu öllu saman.

Í nokkur undanfarin sumur hafa Danir látið herskip gánga inn í Miðjarðarhaf, til að sækja gripi þá, er Albert átti að smíða í Maríukirkju og Kristjánshöll, hefir hann þá jafnan sent með því fjölda gripa, bæði marmaramyndir og gipsmyndir, og er nú góður helmíngur smíða hans kominn til Danmerkur. Hefir hann svo fyrir mælt, að Danmörk skuli erfa gripi sína í minníngu um sig.

Hér var nú komið sögunni 1837. Haustið 1838 kom Albert sjálfur til Danmerkur á Rótu, svo heitir herskip það, er sent var eptir honum og gripum hans um sumarið, sextánda dag Septembers fögnuðu Danir og Svíar honum með saung og gleðilátum í Eyrarsundi, og næsta dag sté hann fæti á land í Kaupmannahöfn, og var honum eigi tekið þar miður; undireins og sást til skipsins, þusti borgarlýðurinn ofanað sjáfarmáli, bæði karlar og konur, úngir og gamlir; allir vildu fagna gestinum og var samt mikið regn um daginn; það er óhætt að segja, að þar hafi verið saman komnar tíu þúsundir manna, eða jafnvel tuttugu. Margir heldri menn, bæði íþróttamenn og vísindamenn voru búnir að taka sig saman um, að fara á bátum út á móti skipinu, og jafnskjótt og það varpaði akkeri lögðu þeir út. Bátarnir voru prýðilega búnir, skreyttir blómstrakerfum og fléttum; á sumum var leikið á hljóðfæri og voru þeir oddvitar flokkanna; hverr flokkur hafði merki sér á staungum; íþróttamennirnir höfðu í merki sínu þokkagyðjurnar, einsog Albert hefir myndað þær; háskólakennarar og stúdentar höfðu mentagyðjuna Mínervu; í einum bátnum voru skáldin, og höfðu þeir skáldahestinn Pegasus í merki sínu; í merki læknanna var læknisgyðjan Hygea, og allir höfðu eitthvort einkenni. Þegar bátarnir voru komnir að skipinu var súngið kvæði er Heiberg skáld hafði ort, og er Alberti fagnað í því; var þá fagurt að heyra saunginn og hljóðfærasláttinn í land; þegar kvæðinu var lokið sté Albert í þann bát er honum var ætlaður, æptu þá allir bátamenn fagnaðaróp, og er hann kom að landi tóku þeir við er í fjörumálinu stóðu; síðan gekk hann að vagni þeim er hann átti í að aka, leystu menn þá hestana frá vagninum, og var hann síðan dreginn af mannahöndum inní borgina; múgurinn fylgdi honum upp á svæði það, er nefnist hið nýa torg konúngs (Kongens Nytorv), stendur við það Karlottuhöll er hann átti í að búa, kvöddu menn hann þar með gleðiópi og gengu síðan heim; um kvöldið gengu íþróttamennirnir úngu að húsi hans með blysum, og fluttu honum kvœði, er ort hafði Kristján Vinter, skáld. Ýmsir fleiri ortu kvæði til Alberts, er hann var nýkominn til Kaupmannahafnar; í einu kvæði fögru er honum fagnað í Íslands nafni, orti það Herra Finnur Magnússon prófessor, um það er Danir og Svíar kvöddu Albert í EyrarsundiXXI. Margar veizlur voru honum haldnar, og þær fjölmennar og vel vandaðar, samt var ein mest og dýrðlegust, voru í henni flestir heldri menn úr Kaupmannahöfn, karlar og konur, fluttu mælskumennirnir þar ræður til heiðurs honum og skáldin kvæði, þarámeðal Adam Oehlenschlaeger, þjóðskáldið, eitt.

Síðan Albert kom til Kaupmannahafnar hefir hann setið í Karlottuhöll, og verið að segja fyrir hvernig reisa skuli líkneskjurnar í Maríukirkju og Kristjánshöll; líkneskjur Jóns Skírara og áheyrenda hans er þegar búið að reisa; það var eitt hið fyrsta er hann tók sér fyrir hendur, að leggja drögur fyrir, að menjagripur sá, er hann hafdi ætlað Íslandi, yrði þángað sendur, og er á það minnst hér að framan.

Þess er getið í 11ta árgángi Skírnis, að í ráði hafi verið að byggja geymsluhús handa smíðisgripum Alberts, og var þegar farið að safna fé til þess; nú hefir konungur skorizt í leikinn og gefið til þess hús eitt mikið við Kristjánshöll, stendur það á milli meginhallar og hirðkirkju, og er áfast báðum. Mörgum mundi að sönnu hafa fallið betur, ef bygt hefði orðið einstakt geymsluhús, og í öðrum stað, en nú verður að una við þetta, og munu gripirnir verða fluttir þángað er konúngur hefir boðið.

Albert Thorvaldsen er gildur meðalmaður á hæð og allan vöxt, hann er réttvaxinn og hefir fallega framgaungu; höfuðið er vel lagað, ennið hátt í meðallagi, augun himinblá, nefið rétt, kinnur í meðallagi þykkar og varirnar eins, munnurinn fríður og hakan stendur fram, hárið er mikið og hrökkur í liðum niður að öxlum, nú er það snjóhvítt, en meðan hann var úngur, var það glóbjart; hann hefir fagra hönd og ekki mikla, eins eru fætur hans; litarháttur hans er fagur, og mjög er hann skinnræstinn; hann mælir jafnan fátt og þá stutt, rómurinn er þægilegur og ekki mikill; hann ritar sæmilega en ekki vel, og þykir honum sér ekki láta það, kveðst hann heldur vilja gjöra tvær höfðamyndir enn rita eitt bréf; hann er enginn áburðarmaður í klæðum, og heldur jafnan á leirkrínglu þegar hann er á gángi, og snýr henni milli fíngra sér. Albert er mjög glöggskygn og handviss; um leið og hann gengur framhjá lærisveinum sínum, lagfærir hann hjá þeim í einu vetfángi þar sem honum þykir eitthvað of eða van, verða þá smíðar viðvænínganna á svipstundu hinar fullkomnustu, og undrast það allir, er ekki hafa séð til hans áður. Opt ber það við, að hann allt í einu breytir myndinni, meðan verið er að höggva hana eptir móti sjálfs hans, og er hann þá svo fljótur að því, að menn í fyrstu mættu hugsa að hann ætlaði sér að ónýta hana með öllu, en svo sýnir næsta högg að hann kann að fara með efnið einsog hann vill, og þarf hann ekki annars enn að snerta það lauslega svo allt ólag fari af. Marmara höggur hann sjaldan, heldur lætur hann aðra gjöra það, og standa svo marmara myndirnar ekki fullbúnar þángað til á að senda þær burt, og þá fyrst leggur hann á þær smiðshöggið sjálfur; þessa vegna hefir leikið orð á því að hann kynni ekki að höggva marmara; hefir og ýmsum ekki þótt eins vandaður frágángur á marmaramyndum hans og KanóvuXXII, en þau eru rök til þess, að sitt hefir hvorjum þótt réttast. Af því að þessu hefir verið fundið, þá hefir Albert stundum skafið myndirnar svo sléttar sem mest má verða, til þess að sýna mönnum, að hann getur það, þá hann vill, því svo er mikill hagleikur hans, að gripirnir verða jafnfagrir hvort sem hann gjörir þá úr leiri eður tré, marmara eður málmi. Eittsinn var haft orð á því við hann í veizlu, er menn voru orðnir glaðir, að hann væri að sönnu hinn mesti myndasmiður, en hann kynni ekki að höggva marmara; honum brá við og mælti: hvað segirðu! Kann jeg ekki að höggva marmara? Þið megið binda mér báðar hendur á bak aptur, og skal jeg þá naga myndina út úr marmaranum með tönnunum. Ekki var það Alberti að kenna, og Kanóvu eigi heldur, þótt menn ætluðu að þeir öfunduðu hvorr annann, og hötuðust; hitt var það, að aðrir útífrá héldu sinn með hvorjum þeirra, gættu þá eigi ætíð hófs sumir hverjir í meðhaldinu, þegar rætt var um hagleik þeirra, og urðu þá deilurnar æði frekar stundum, og vegna þessa leit það svo út, sem hvorr þeirra Alberts og Kanóvu vildu níða annann, þótt raunar væri lofsverð keppni þeirra; víst er um það, að Albert, flestum mönnum fremur, lætur Kanóvu njóta sannmælis, og sama gjörði hann við Albert.

Meðan Albert var í Rómaborg var háttum hans lýst á þessa leið: „Úngir íþróttamenn í Rómaborg unna Alberti hugástum; hann er þeim hinn ráðhollasti, þykir þeim góð tilsögn hans, og fá hana jafnan fyrirstöðulaust; hann er opt í samsætum þeirra og tekur þátt í glaðværðunum, er hann þá kátur og skemtinn; hann situr þá jafnan í bláum kufli og með skó á fótum, sýgur reyk úr tóbaksvindli (Cigar) og hefir hund sinn, Pistos, hjá sér, og horfir svo á skemtanir úngu mannanna, en opt ber það við að hann stökkur úr sæti sínu og bregður á leik með þeim. Á jólanóttum heldur hann dönsku íþróttamönnunum veizlu og veitir þá vel, en á nýársnótt er hann ásamt þeim að heimboði hjá enum þjóðversku. Á vetrarkvöldum er hann jafnan í samkvæmum Rómverja. Alla helztu ferðamenn lángar til að sjá hann, líður því varla nokkurt kvöld svo, að hann ekki sé í veizlum með höfðíngjum; verða þá margir til að ræða við hann, og sjálfum þykir honum gaman að tala við fríða kvennmenn, er hann þá hinn kurteysasti og siðprúðasti”.

Á því má sjá hvað vinhollur Albert er, að þegar hann fór til Rómaborgar, þá bauð hann vini sínum, er Fritzsch hét, helmíng ferðapenínganna, svo hann gæti farið líka, og voru þeir samt ekki nema 400 kúrantdala, en hinn vildi ekki nýta sér góðvild hans, er hann sá að Alberti mundi ekki veita af þeim öllum.

Það er eitt merki mannelsku hans, að hann bauð eittsinn marmara grip, er hann hafði smíðað, til að liðsinna norskum valdamanni er hafði ratað í ólán og sat með þúngt heimili; svo stóð á, að nokkrir Norðmenn, er þektu manninn að góðu fóru í liðsbón fyrir hann og leituðu Alberts, lét hann þá ekki sitt eptir liggja og bauð þeim kvennmynd er táknar elskuna (Caritas, sjá hér að aptan); lýsir hún því bezt innra manni hans, undireins og hún táknar bæði kristna elsku og mannelsku.

Ekki kemur það til af eptirsókn Alberts, að hann hefir smíðað svo margt fyrir aðra, og opt hefir hann vísað á ýngri myndasmiði til að koma þeim fram; samt á enginn honum annað eins upp að unna og Rauch hinn prússneski. Lovísa Prussadrottníng dó árið 1810, var þá Albert beðinn að gjöra yfir hana varða, og mikið fé boðið til þess, en hann svaraði því sendimanninum, að sig furðaði á því, að til sín væri leitað, þar sem Prussar ættu ágæta myndasmiði sjálfir innlenda, og nefndi tvo hina högustu er þá voru í Rómaborg og hétu Rauch og Schadow, var þá farið til Rauchs og varð hann frægur af smíðinu, en það á hann Alberti að þakka.

Það er haft að undrum hvað Albert er fljótvirkur, svo vandaðir sem gripir hans eru; en helzt sætir það undrum hvað fljótur hann var einusinni: Hann hafði verið veikur um nokkra hríð, og var þá þúnglyndur einsog hann á vanda til, einkum þegar svo á stendur; það var einn morgun snemma að hann reis úr rekkju sinni, og tók til að mynda „Nóttina”, sem talin er einna fegurst smíða hans; sat hann þá við hana nokkrar klukkustundir og sendi eptir gipssteypumanni sínum Antonio, er gjöra átti mótið; Antonio kom um miðmundabil, og þá var myndin búin og Albert kominn lángt með aðra, sem táknar „Daginn”, svo þegar Antonio ætlaði að fara, þá kallaði Albert eptir honum og bað hann að bíða stundarkorn, svo hann gæti fengið þá mynd með sér líka.

Þegar fornar líkneskjur eður myndir finnast, þá eru þær, einsog nærri má geta, víða brotnar og bilaðar, svo opt vantar heila limu og kafla, er þá ekki lítill vandi að gjöra svo við þær að vel fari; Albert hefir sjálfur kveðið svo að orði um það, að það væri hinn vesti starfi, því sé illa gjört við fornmyndir þá sé það betur ógjört, og hafi það tekizt vel, þá sé raunar ekkert gjört. Árið 1811 fundu enskir og þjóðverskir ferðamenn 17 líkneskjur í rústum á Egínu (eyu í Grikklandshafi); myndir þessar tákna atburð þann, er Grikkir og Trójumenn börðust um Patróklus fallinn, og keypti Loðvík Bæarakonúngur þær af þeim er fundið höfðu, og bað Albert að gjöra við þær; hann var tregur til þess en lét þó til leiðast, svo ekki væru aðrir fengnir til þess, er kynnu að spilla þeim; hann var lángan tíma að því og þótti verkið illt, en svo vel tókst honum aðgerðin, að þegar nokkuð var frá liðið og hann var beðinn að vísa á það hvar hann hefði við gjört, þá mælti hann: „Eg man það ekki, og séð það get eg ekki!“

Forngrikkir reistu opt líkneskjur á lopti, yfir súlum þeim er reistar voru við gafla hofanna, var þar bust yfir, svo þannig varð að haga líkneskjunum, að þær stæðu hæst er í miðjunni áttu að vera og hinar færu lækkandi út þaðan; þannig var nú þeim varið er fundust á Egínu, og hafa þær eflaust verið fyrirmynd Alberts er hann tók að smíða:
Líkneskjur Jóns Skírara og áheyrenda hans.

Rúm það er líkneskjurnar standa í er þríhyrnt og bustarlagað, og er þeim þar aðdáanlega fyrir komið. Jón Skírari stendur á steini í miðjunni og áheyrendur hans á báðar hliðar út frá honum, standa sumir, aðrir sitja og nokkrir liggja, þar eru bæði menn og konur, gamalmenni, fullorðnir, únglíngar og börn. Ytst í hægra horninu liggur úngmenni, hann styður vinstri hönd undir kinn og liggur á yfirhöfn sinni, sem hann hefir breitt undir sig og uppá stein, sem hann styður handleggnum á; undirhöfnin hángir á vinstri öxl honum ofan um brjóst og hægri handlegg, og er henni sveipað yfir holið; hægri handleggurinn er berr, og réttir maðurinn þann fram yfir steininn; fæturna hefir hann lagt í kross þannig, að hinn hægri er ofaná, og hvílir hann svo kroppinn meðan hugur hans hefir nóg að starfa; svipur hans lýsir því að hann er fullur guðrækni og hlýðir á með athygli. Næstur honum er gamall maður lotinn, hann hugleiðir tölu spámannsins og metur boðun hans með sér; hann ber mikið skegg og hefir sveipað klæði um höfuð sér; yfirhöfn hans er mikil og ber hann hana á báðum öxlum, og hylur með henni hægra handlegg næstum allan, og tekur hana saman um lífið, hánga svo ytstu endarnir ofan á milli knjánna, sem riða og skjálfa; tala Skírarans fær svo á hann, að hann lyptir upp vinstri hendinni, einsog hann ætli að taka til hjartans, sem enn er efablandið. Honum næst er kona með barn sitt; hún hefir gengið út á eyðimörkina til að láta skírast; mælska spámannsins fær svo mjög á hana, að hún krýpur á hægra kné, hún hrífst af guðræknis hugrenníngum, og leggur hendur sínar í kross á brjóstið, og heldur svo yfirhöfn sinni, sem hún er búin að taka af sér; barnið stendur á baki móður sinnar, og styðst við hægri öxl henni og mænir saklausum augum á spámanninn, einsog það sér móður sína gjöra. Svo eru tveir feðgar; það lítur svo út sem hinn úngi maður sé frá sér numinn yfir enum helga mælskumanni, og hafi talið föður sinn á að gánga út á eyðimörkina til að hlýða á hinn nýa spámann; sjálfur er hann ekki annað enn eptirtektin ein; hann styðst við föður sinn, og er hrærður og glaður yfir þeim áhrifum er mælskumaðurinn þegar hefir gjört í hjarta hins aldraða. Hinn gamli maður hafði ekki vænt mikils af gaungunni, og ennþá er hann ekki búinn að kannast við það við son sinn, að hann undrist með sjálfum sér, en svipur hans lýsir því, er hann einblýnir á spámanninn, hlýðir á hann með mesta athygli og heldur höndunum utanum báða úlfliði; með þessu lætur hann það í ljósi er sonur hans þegar hefir tekið eptir, fullur innra fagnaðar. Fyrir framan þá stendur fullþroska maður, hann hefir tekið af sér yfirhöfnina, og heldur á henni í hægri hendi upp við brjóstið; hann stendur vinstra fæti á steini þeim sem Jón er á, hefir vinstri alnboga á knénu og styður svo hendinni undir höfuðið, en lítur upp á spámanninn. Hæst allra og í miðju stendur Jón skírari, hann hefir staf með krossi áXXIII í vinstri hendi; hægri hönd réttir hann upp og bendir til himins og táknar það þessi orð hans: „snúið yður, því himnaríki er í nánd!“ Þar stendur Jón skírari, hinn hrausti spámaður, sem hefir hert líkama sinn með sparneytni og þrautum; hann er í klæðum úr úlfaldahári, hefir ó1 um hægri öxl og hángir í henni skel, það táknar að hann sé skírari; hann hefir mikið hár og þykt, er djarfmannlegur á að líta, og á svip hans og vörum má það sjá, að hann er fullur helgra hugrennínga og ákafa, og flytur refsíngarræðu með mikilli alvörugefni; á vinstri hlið Jóni skírara stendur fríður maður ungur, og bíður þess að spámaðurinn endi tölu sína, til þess hann geti látið skírast, af ákafanum er hann búinn að taka af sér yfirhöfnina, og ber hana á vinstra handleggi; svipur hans lýsir því að sönnu að hann taki eptir ræðunni, en hann stendur svo, að það er auðséð, að hann lángar fremur til að henni væri lokið, svo hann geti farið með Jóni ofanað ánni. Næst þessum stendur maður honum næsta ólíkur; það er Farísei, sem hefir gengið inn á milli áheyrendanna, hann stendur við, hlustar, og gengur með drambi framhjá Jóni skírara, sem hann fyrilítur; hann ber mikið skegg og hefir húfu með nokkurskonar klerkaeinkenni á höfði; yfirhöfn hans hángir á báðum öxlum og legst saman yfir brínguna, hann styðst fram á staf og heldur um hann báðum höndum. Á baki Faríseans stendur veiðimaður; hann kemur af veiðum, og nemur staðar þegar hann lítur spámanninn í miðjum mannfjöldanum; hann hefír gengið hægt að þyrpíngunni, og horfir nú á þann sem talar; svipur hans lýsir því, að orð þau sem hann heyrir ná hjarta hans, og að sála hans gleðst af því að hugsa um himnaríki; hann hefir lágtypptan barðahatt á höfði, heldur á spjóti sínu í hægri hendi og reiðir það um öxl; undirhöfnina hefir hann krækta um öxl sér, og er gyrður belti um miðju, yfirhöfn hans hángir yfirum hægri öxlina og ofaná bakið; við vinstri hönd heldur hann miklum dýrhundi. Á bak veiðimanninum situr kona með þrjú börn; börnin taka ekki eptir öðru enn hundinum; mærin og eldri sveinninn eru komin nálægt honum, en hvorugt þorir að gánga nær, af því hundurinn er farinn að urra og reisa eyrun; mærin er hrædd og stendur á baki sveininum, en er samt að eggja hann á að gánga ennþá eitt fet; þriðja barnið er sveinn, og er hann hugaður mjög, og mundi hann hlaupa beint á hundinn ef móðir hans héldi ekki í hann; börnin glepja fyrir henni, samt horfir hún á spámanninn, og er sem hún vilji skýla því með eptirtekt sinni, að hún er smeik um þau. Ytst í vinstra horninu liggur hirðir upp við stein, styður hægra handleggi á hann og horfir svo á Jón skírara; yfirhöfn hans hángir yfir vinstri öxl og niður að framan og girð í belti; vinstri hönd styður hann á kné sér, og heldur á staf sínum í hægri hendi.

Líkneskjur þessar eru allar úr rauðgulum leiri brendum (terra cotta) og standa nú uppi yfir dyrum Maríukirkju, sem er dómkirkja í Kaupmannahöfn; eru þær fagrar á að líta, og má segja um þær, að þær gjöri eins mikil áhrif á mannfjöldann sem fyrir neðan gengur og hin hjartnæmasta ræða.

Ástin á ýmsum aldri eður Ástasalan.

Psyche er látin selja ástirnar, og stendur hjá henni körf og í henni vængjaðir ástaguðir á stærð við tvævetra eður þrevetra sveina; hún er búin að taka í vængina á einum, og ætlar að bjóða hann til sölu, og um leið og hún hefir hann á lopt í hægri hendinni heldur hún voð yfir karfaropinu með hinni, svo ángarnir litlu, sem eru að iða í henni, komist ekki út. Við körfina stendur mær ein lítil, og veit hún ekki annað, enn að ástarguðirnir séu dálítil börn með vængi, og lángar hana til að leika við þá; en hjá henni stendur önnur mær, nokkrum árum eldri, og heldur í hönd henni, lítur svo út sem hana gruni meira um vængjuðu sveinana, enn ætla má af börnum; dálítill ástaguð er þegar búinn að brjótast út úr fángelsinu og ætlar að fljúga í faðm henni; nú fínnur hún í fyrsta sinni til ástar, og ræðst í að klappa höfðinu sem gægist upp úr körfinni, og er samt hálffeimin. Þessunæst kemur tilhugalífs- og laungunar-skeiðið: Frammifyrir Psyclie krýpur kona, og fórnar höndunum til að grípa ástaguðinn, sem Psyche heldur á. Eptir laungunina kemur nautnarskeiðið: Kona er búin að kaupa sér ástaguð, hún faðmar hann að sér með innilegum fögnuði og kyssir varir hans brennheitum kossum. En eptir nautnina kemur eptirsjónin: næsta konan fetar döpur og niðurlút með ávöxt ástarinnar undir hjarta sér, dregur ástaguð sinn eptir sér á vængjunum og skiptir sér ekki af honum. Maður situr raunamæddur og styður hendi undir kinn; ástaguðinn situr hróðugur á herðum honum og finnst manninum byrðin þúngbær. Þetta táknar hnignunar-aldurinn undir oki ástanna; en þrátt fyrir raunir þessar fálmar gamalmennið höndum sínuin eptir ástaguðinum, sem flýgur frá honum og gjörir gis að elli hans og hrumleik. 

Hér eru taldar

Smíðar Alberts Thorvaldsens

er hann hefir gjört um undanfarin 51 ár.XXIV

Við marmaramyndir þær, sem til Kaupmannahafnar eru komnar, stendur þetta auðkenni *, við gipsmyndirnar stendur .

1789.

* Ástaguðinn Amor, (einsog Grikkir og Rómverjar ímynduðu sér hann), liggjandi. Lágmynd.

1791.

* Heliódórus rekinn útúr musterinu. Lm.
* Príamus konúngur biður Akkilleif um lík Hektors sonar síns. Lm.

1792.

* Herkúles og Omfala. Goðafréttin í Delfí bauð að selja Herkúles mansali Omfölu Lýda drotníngu, og gjörði Hermes það, sendiboði guðanna; hún töfraði hann svo með ástarhótum sínum, að hann tók snældu hennar og spann sem kona, og á meðan tók hún kylfu hans og ljónshúð frá honum. Lm.

1793.

* Pétur postuli læknar manninn limafallssjúka. Lm.

1794.

* Vetur, sumar, vor og haust. Lm.
* Dagsstundirnar.

* Terpsíchóre
* Euterpe
} Mentagyðjur. Lm.

1795.

* Núma Pompilíus, Rómverjakonúngur, og Egería lindargyðja (Nympha); hún er að þylja fyrir honum lagagreinir og ýms heilræði, og hann ritar eptir á spjald. Lm.

1798.

* Bakkus og Aríaðna. Þeseifur, sonur Ægis konúngs í Atenuborg, vann Mínótárus (skrímslið) í völundarhúsinu á Krítarey, og komst þaðan aptur með ráðum Aríaðnar konúngsdóttur, hún flúði með honum, en hann brást henni, og skildi hana eptir á Naxey, þar hitti Bakkus hana og huggaði hana.

1800.

Friðargyðjan situr á jarðarhnettinum, heldur á Merkúrs staf _ í hœgri hendi og vefur hinni vinstri utanum vætti (genios)_ auðæfa og nægta, er standa við hlið hennar á hnettinum; hún treður hervopn fótum.

1801.

Jason, heldur á gullreifinu og gengur til skips. Líkneskja.

1803.

Akkilleifur og Bríseis. Akkilleifur hafði hertekið Bríseis í Trójubardaga, en Agamemnon, foríngi Grikkja, sendir Talþybios og Evrybates eptir henni í tjald Akkilleifs; hann varð að láta undan, og bauð Patróklusi vini sínum að láta hana af hendi, en sjálfur varð hann afarreiður; gripurinn sýnir æði Akkilleifs, er mærin er tekin frá honum. Lm. 

1804.

* * Dansleikur mentagyðjanna á Helíkonsfjalli.

* Ástaguðinn Amor, og Psyche. Amor leggur vinstra handlegg yfirum Psyche, og heldur með hægri hendi í hægri hönd henni, sem hún hefir lagt á öxl hans; í vinstri hendi heldur hún skál með ódáinsöli, er hann hefir rétt henni.

1805.

Vínguðinn Bakkus, styður mjöðminni á eikarhol, heldur á staf sínum í vinstri hendi en á bikar í hægri, og lítur ílaungunaraugum ofaní hann. Líkn.

* * Ganymedes, arnarfóstri, réttir erni Júpíters skál að lepja úr. Líkn.
Kvæðaguðinn Apollon, stendur með hörpuna í vinstri hendi, er að hugsa nýtt kvæði og heldur boganum í hægri hendi upp undir brínguna. Líkn.

* Ástargyðjan Venus, heldur á þrætueplinu sem Paris Príamsson er búinn að dæma henni. Lm.

1807.

* * Skírnarfontur í Brátröllaborg á Fjóni, annarr líkur sendur Íslandi, á honum er blómhríngur („krans”) sem skírnarskálin á að standa á, en á hinum ekki.

1808.

* Ýmsar myndir yfir útidyrum á Kristjánshöll. Lm.

* * Mínerva og Prómeteifur. Próm. er búinn að gjöra mannsmynd úr leiri, og hefir beðið Mínervu að líta á; hún er komin til hans, hann horfir á hana með eptirvæntíngu en hún gefur myndinni líf, fjörið er tekið að færast í kroppinn, hann er farinn að ypta öxlum og snýr höfðinu að Mínervu. Lm. á krínglu.

* * Herkúles og Hebe. Herkules er numinn upp til himins (á Olymp) eptir stríða baráttu lífsins, og tekur þar við goðadrykknum, er gjörir ellivana, af hinni síblómlegu æskugyðju. Lm. á krínglu.

* * Júpíter og Nemesis. Hefndagyðjan Nemesis kveður upp fyrir dómandanum Júpíter athafnir mannanna. Lm. á krínglu.

* * Æskulápur og Hýgæa. Læknisgyðjan kemur til föður síns, og gefur fæðu orminum sem vindur sig utanum staf hans. Lm. á krínglu.

Mars boðar frið.

Adónis. Líkn.

* A genio lumen. Hér er sýnd íþróttagyðjan í konumynd, hún situr og styður vinstri hendi undir kinn, hefir hún lagt hægra knéð uppá hið vinstra, og dregur upp myndir á töblu, sem liggur á hægra knénu. Við hlið hennar stendur skápur, og brennur á uppi lampi sá er ber henni birtu. Við fótinn á skápnum má líta uglu Mínervu, og hörpu sem sett er þar uppvið, og er með því bent til þess, að skáldskapur og mentir séu náskildar smíðalistunum.

1809.

Hektor, Paris og Helena. Þegar Paris var ofurliði borinn í einvígi af Menelási, þá nam Afrodíte hann á burt og upp á borgarvígi, hýmdi hann þar hjá Helenu með löðurmennsku í hinu skrautlega húsi og hugði af orrostu. Meðan á þessu stendur þraungva Grikkir að Hektori og Trojumönnum, þá reiðist Hektor og skundar til vígisins, til þess að kalla Paris til orrostu, og hefir í hendi spjót sitt 11 álna lángt, hittir hann Paris, þar sem hann sýslar að vopnum sínum, og Helenu með þjónustumeyum sínum að handiðnum; hann ávarpaði Paris og svívirti hann í orðum. Lm.
Amor vinnur ljón. Lm.

Fædd Venus; svo er frásagt í guðafræðum, að Afródite fæddist af sjávarfroðu, og er það hér sýnt með þeim hætti, að hún annaðhvort er að ljúka upp eða er þegar búin að ljúka upp hörpuskeljum, og er svo tilætlað, að menn ímyndi sér að hún sé flutt í þeim til Sýpríu stranda. Lm.

* Amor særður af hunángsflugu. Lm.

* Merkúríus, Bakkus og Íno. Þegar Júpíter hafði leynt Bakkusi kornúngum um 3 mánuði fyrir Júnó, af því hún var hrædd um mann sinn, þá sendi hann Merkúríus með barnið til Ínóar Böóta drotníngar og systur Semelu, skyldi hún veita sveininum fóstur svo að leynt færi. Lm.

1810.

* Amor og Bakkus. Bakkus er að gefa Amori vín, og hann gleymir örvamæli sínum af því honum þykir vínið svo gott. Lm.

* * Caritas. Thorvaldsen hefir með henni sýnt ekki að eins móðurástina, heldur er hún líka ímynd kristinnar ástar.

* Amor og Psyche. Apúlejus segir svo í fögru frásögunni sinni: að Venus jók því á aðrar þrautir er Psyche hafði orðið að leysa af höndum, að hún bauð henni að fara í undirheima og sækja til Próserpínu bauk fullan fegurðarsmyrsla. Psyche gjörir sem fyrir hana var lagt og kemst í undirheima, þótt henni mættu margar ginníngar og þrautir á leiðinni, og fær af Próserpínu baukinn góða, en á heimleiðinni, er hún var nærri því komin þángað sem dagsbirta hefst, þá kemur að henni forvitni — lýkur upp bauknum — en þá rauk uppúr honum gufa og sveif á hana, svo hún leið í aungvit og hné til jarðar. Þá gat Amor ekki lengur horft á svo margar þjáníngar, án þess að láta af fjandskap, hann skundar þángað sem hún er til að hjálpa henni, en endurlífgar hana og kveikir í henni ástina eilífu, er þau höfðu þaðanífrá hvort til annars með samþykki guðanna. Lm.

Vúlkanus, Venus, Amor og Mars. Lm.

* * Mars og Amor. Risavaxnar líknn.

1811.

* Sumar
* Haust
} Lm.

* Varði yfir leiði Ágústu Böhmer. Þrjár Lmm.

Psyche með baukinn, hún heldur á bauknum milli handa sinna, og veit ekki hvað hún skal af ráða, hvort hún á að ljúka honum upp eða ekki. Líkn.

* Amor. Líkn.

1812.

* * Sigurför Alexanders inní Babýlon. Lm. á spiöldum.

1813.

Victoria eður Sigurgyðjan krýnir fallinn kappa. Lm.

* * Tvær kvennmyndir (er halda himni yfir hásæti). Líkn.

1814.

* Amor hrósar happi, þegar hann er búinn að taka frá Júpíter þrumufleininn, hjálminn frá Mars, hörpuna frá Apolloni, ljónshúðina frá Herkúlesi, þríforkinn frá Neptúnusi og Thyrsusstafinn frá Bakkusi.
Varði yfir Bethmann Hollwey. 3 Lmm.

* * Legsteinn yfir Barónsfrú v. Schubart. Lm.
* Nessus og Deianíra. Þá er Herkules hafði sigrast á meðbiðli sínum Akkelóus, þá vildi hann hafa með sér unnustu sína Deianíru til Trakíu, en er hann kom að ánni Erenus, þá mátti hann ekki yfir komast, því fljótið lá á bökkum; þá bauðst Centaurus (nautmennið) Nessus til að flytja mærina yfir fljótið á baki sér, en óðar enn hann kom yfirum fékk hann ást á konunni, er hún var væn álitum; hún kvaddi þá Herkúles liðveizu, en hann skaut spjóti yfir ána og í gegnum skrýmslið.

* Líkneskja Lady Russel (Frúr Russels á Englandi).

1815.

Príamus og Akkilleifur. Lm.

* * Nótt
* * Dagur
} Lm. þremsinnum smíðaðar.

* Líkneskja Greifafrúar Ostermanns í Garðaríki.

1816.

* Hebe (arnarfóstra). Líkn.
* * Ganýmedes. Líkn.
* Varði yfir leiði Greifafrúar Berkowsky. Lm.
* Dansleikastúlkan. Líkn.

1817.

* Legsteinn yfir Greifafrú Pore. Lm.
* * Ganýmedes með örninn. Líkn. tvisvar gjörð.
Hjarðarsveinn. Líkn. 5 sinnum gjörð.
Vonin. Líkn.
Konurnar við gröf Krists. Lm.

1818.

* * Merkúríus. Líkn. 4 sinnum gjörð.
* Kristur með lærisveinum sínum hjá Tiberiasvatni. Lm.
* Kristur í Emaus. Lm. úr silfri.
* Legsteinn yfir Lady Newboock.
Legsteinn yfir Barónsfrú Chandry.
* Heiðursvarði Maitlands Lávarðar.
* Líkneskja Furstafrúar Baryatinsky.

1819.

* Þokkagyðjurnar.
Heiðursvarði yfir fallna Sveissara.
Maríuvitjun. Lm. 

1820.

* Krists skírn. Lm.
* Kvöldmáltíðin. Lm.
* Þrír einglar með blómbönd.

1821—22.

Líkneskja Potockýs fursta.
* * Þokkagyðjurnar. Lm. tvisvar gjörð.
* * Kristur. Pétur. Páll. Matheus. Jakob eldri. Tómas.
* * Filippus. Jakob Alfeusarson. Símon vandlætari.
* * Bartólómeus. Andrés. Jóhannes. Júdas Taddeus.
* Jóhannes talar á eyðimörku. 16 líkneskjur úr brendum leiri.

1823.

* Líkneskja Nikulásar Koperníkusar risavaxin.
* Líkneskja Póniatóvskýs fursta á hestbaki.
* Anakreon ská1d og Amor. Lm. tvisvar gjörð.
Skírnareingillinn, standandi.

1824.

Ástin á ýmsum aldri. Lm.
* Lágmyndir á kistu Consalvis.
Píus 7di páfi.
* Kristinn máttur.
* Kristin speki.
* Einglar tveir.
} Líkn. Heiðursvarði yfir Píus 7da Páfa.

1825.

* * Liggjandi ljón.

1826—27.

Líkneskja Hertogans af Leuchtenbergi. 
Mentagyðja sagnafræðinnar. Líkn.
Andar lífs og dauða.
* Líkneskja Karólínu Amalíu, sem nú er Danadrotníng.
* * Skírnareingillin, krýpur á kné.

1828.

Minnisvarði yfir frú Thompson. Lm.
* Tobías, minnisvarði yfir Vacca Berlenghieri, augnalækni. Lm.
* Amor, situr á erni.
* Amor, vinnur Kerberus (vítishund).
* Amor á höfrungi.
* Amor leiðir ljón.

1829.

Leiðisvarði yfir v. Irgens-Bergh, Kammerherra.

1830.

Líkneskja Byrons (Bærons) Lávarðar og þjóðskálds.

Kvæðagyðja situr undir hörpu
Standandi Genius.
} Lágmyndir, eiga við heiðursvarða Byrons.

Clio (mentagyðja) ritar letur á skjöld.
Standandi Genius heldur á skildi.
Dauðans andi.

1831.

Mínerva dæmir Ódysseifi vopn Akkilleifs. Lm.

* Satýr kennir úngum Fáni (Skógarvætti) að blása í hljóðpípu. Lm.

* * Kona lætur barn ríða hrúti
* * Laus hestur flýr undan hundi
} Lm. Viðuraukar við sigurför Alexanders.

* Júpíter, þylur Amori lög.
* Amor, lætur vel að hundi.
* Amor, á báti.
* Amor, ríður net til að veiða Psyche.
* Amor, heldur á rós frammi fyrir Júpíter og Júnó.
* Amor, kveikir í klettum.
* Amor, líður yfir lög.
* Amor, líður yfir land.
* Ainor og Hymen (hjónabandsguð) spinna lífsþráðinn.
* Amor í böndum hjá Þokkagyðjunum.
Allt lágmyndir

1832.

* Hirðmey með Amorlínga hreiður; Lm.
* Hýlas Bithynakappi í böndum hjá Vatnagyðjunum. Lm.
Amor, kastar teníngum við Ganymedes. Lm.
Parnassus (Goðafjall). Lm.
Alexander, kveikir í Persepolis.
Maximilian af Bæaralandi, risav. líkn. á hesti.

1833.

Bakkusarmey með lítinn Fán. Lm.
Ganymedes og Hebe. Lm.

* Matheus.
* Markús.
* Lúkas.
* Jóhannes.

Örlagadísirnar. Lm.
Smásveinar, leika á hljóðfæri og sýngja. Lm.
Albert Thorvaldsen kominn að takmarkinu. Lm. 

1834.

Jóhanns Gúttenbergs (er fann upp bókaprentun).
Lágmyndir á gröf Rafaels málara.
Apollon meðal hjarðsveina.
Nemesis Hegníngardís. Lm.

1835.

Krists upprisa. Lm.
Dómur Salómons. Lm.

1836.

Líkneskja Schillers skálds.
Heiðursvarði yfir Konradín keisarason.
Hektor kveður Andrómökku. Lm.

Eptir að Albert Thorvaldsen var kominn til Kaupmannahafnar (í September 1838) hafði hann lítið næði, og smíðaði hann þá fátt um hríð annað enn:

* * Verndareingil sem heldur á barni; stendur í Maríukirkju; og 4 líkneskjur sem standa eiga í grópum (Nischer) beggjamegin við aðaldyr á Kristjánshöll.
* * Herkúles, Mínerva, Nemesis og Æskulápur.

Um vorið 1839 bauð Frú Stampes, Barúns nokkurs auðugs á Nýsjó í Sjálandi, Alberti á garð sinn tilsumarvistar, og lét búa honum þar smíðaherbergi, og hefir síðan mátt sjá, að honum er ekki mjög aptur farið, því hann hefir búið þar til þetta sem nú skal telja:

Holberg, brjóstmynd. 

Kristur, blessar börnin; Lm.

Albert sjálfur, styður sig við Vonina; líkn.

Píslargánga Krists. Lágm. 36 álna l., 3 álna há; stendur yfir altari í Maríukirkju.

Perseifur, nemur Andromedu á Pegasus skáldahesti; Amor hleypur á undan; Lm. á krínglu.

Engill krjúpandi, ætlaður á grafarmark.

Oehlenschlaeger Danaskáld, brjóstmynd.

Krists innreið í Jerúsalem, Lágm., 24 álna 1. 2álna há, stendur yfir útidyrum á Maríukirkju.

Kristur í Emaus, Lágm. til altaristöflu.

Árvætturinn (Aarets Genius) smíðaður á nýársdag 1840, á krínglu.

Díana, þar sem hún biður Júpíter að leyfa sér að lifa ógipt og við dýraveiðar.

Amor, krýnir heilsugyðjuna.

Amor og Hýmen.

Fánn og Bacchusarmey á dansi.

Albert hefir einnig mótað myndir þær, sem ætlaðar voru á fráhverfu (revers) penínga þeirra, sem slegnir voru til minníngar um komu Kristjáns áttunda til stjórnarinnar, og um silfurbrullaup hans.
Gauti (Göthe) þjóðverja skáld, tvö mót.

Oceanus, aðalhafsguð, ætlaður til aðalbustarinnar á Kristjánshöll.

Kristján fjórði Danakonúngur, í fullri stærð og búníngi slíkum sem hann bar; Mynd þessa á að steypa í eir og setja í Hróarskeldu kirkju.
Leda og svanurinn á þremur krínglum:

a) Svanurinn með Amor á baki, í því hann kastar sér á ána til sunds. 
b) Svanurinn syndir með Amor á baki; Amor skýtur ástaröru (til Ledu).
c) Svanurinn á þurru landi hjá Ledu.

Amor flýr með þrumufleiga Júpiters þrumuguðs.

Amor og Psyche.

Psyche með lampann (til að skoða Amor sofanda); Lágm.

Amor, þegar hann skilst frá Psyche; Lágm.

Bacchussveinar tveir á dansi. Lágm.

Laugarför (Badescené);
Heimilis atburður (familiescené)
} Lágm.
Kristur 12 vetra í musterinu.
Kristur og hin samverska kona.
} Lágmyndir

Hans prestur Maðsson í herbúðum Daníels Ranzaus (þar sem hann segir frá atferli og ráðum þeirra óvina Kristjáns hins þriðja á undan orrostunni við Öxnabjarg 1535); Lágm.

Elieser og Rebekka við brunninn; Lágmynd.
Psyche. Líkn.
Postuli, í móti.
Friðrekur enn sjötti Danakonungur, sitjandi. 

Á fundi hins norræna Fornfræðafélags, 6ta dag Októbers 1838, var A.Thorvaldsen fengin bókin: Antiqvitates americane, og þá ávarpaði Aukaforsetinn Herra Etazráð og Riddari Dr. Finnur Magnússon hann með þessum orðum:

„Í nafni forfeðra vorra bið jeg þig, tignaði A. Thorvaldsen! að koma heilan í félag það, er starfar að því, að láta þá lifa ennþá í fornritunum, sem eru menjar þeirra, er nú mega ekki framar líða undir lok, síðan Jóhann Gúttenberg fann upp prenttólin, einsog þú hefir sýnt. Að vísu voru þeir flestir norðurlandabúar, sem unnu afreksverk þau, er sögurnar skíra frá; mestur þorri þeirra voru: Danir, Noregsmenn, Svíar, Gautar og Ís1endíngar, sumir voru komnir frá tignustu mönnum á Englandi, Skotlandi, Írlandi, Saxlandi og Frakklandi, og að nokkru leiti frá Vesturálfubúum, þar er einn borinn forfeðra þinna hérumbil þúsund árum eptir Krists burð. Ættartölur þær, er lýsa þessu berlega, eru nú í bók þessari, er einn félagsbróðir vor hefir prenta látið, segir þar og frá því, að forfeður vorir á norðurlöndum fundu fyrstir allra, svo sannað verði, hina nýu álfu, og er það mikilvægur atburður í mannkynssögunni, en næsta ókunnur til þessa. Þitt nafn er eitt hið mesta skraut bókarinnar, þessvegna bjóða nú formenn félagsins bókina Thorvaldsen sjálfum, og beiðast þess innilega að hún verði ljúfmannlega þáð. Það mun fá þér unaðar er þú sér það í henni, að Þorvalds nafnið, sem allir jarðarbúar unna svo mjög, en norðurlandamenn heitast, áttu fyrir rúmum átta hundruðum ára ættmenn þínir í báðum heimsálfunum. Nafnið táknar þann sem gæddur er mætti Þórs, og að vísu geymdu forlögin það syni Þorvaldar, að frægasta skáld aldar vorrar kvað svo um hann:

Thor fra Island i Rom vækker Kronion til Liv.

Sælir erum vér þess, að Þorvaldssonur hefir eigi reidt hamarinn eingaungu í Rómaborg eður fyrir hana; það sem með honum hefir verið höggvið útúr marmaraklettum Vallands skreytir nú konúngahallir Skjöldúnganna og Drottinshús Absalonsborgar; þeir sem uppi verða á síðustu öldum skulu dáðst að því í geymsluhúsi dýrgripa þeirra, er hinn göfugi höfundur hefir gefið fæðíngarstað sínum — já, jafnvel Íslandi, sem er svo fjarlægt, þar sem öll föðurætt þín býr, sem á svo lítið af auðæfum, en næga frægð, er það hefir varðveitt trúlega og kostgæfilega fyrir fornaldarkappa og skáld. Við það erum vér tengdir hið nánasta; þetta samband knýtist þó enn fastar við návistir þínar með oss. Danmörk er fósturjörð þín og heimili móðurættar þinnar. Í þér sameinast ættbálkar norðurlanda, einsog þeir tengjast bræðrabandinu í þessu félagi voru, til að skíra sameginlegar fornaldar-minníngar vorar og geyma þeirra. Hið norræna fornfræðafélag heldur því sanna hátíð í kvöld, er það nú í fyrsta skipti á fund með þér, tignaði Thorvaldsen! er fyrstur hefir kennt enum stærilátu suðurlöndum, er náttúran hefir veitt svo mörg gæði, og hafa fengið ágæti af eldgömlum dýrgripum, að heiðra norðurlönd vor, undireins og þau votta virðíngu sína mesta íþróttamanni seinni aldanna, því þú hefir endurreist hina frægu fornöld Suðurheims, en hún hefir flutt sig frá Tíbers árbökkum á Eyrarsunds strandir. Satt hafði Þórborg að mæla, valan hin heiðna, er bjó undir himinbelti norðurstjörnunnar, er hún spáði því fyrir afspríngi ættmóður þinnar, að hann mundi verða máttugur, bjartur og ágætur, og að skærri geislar mundu af honum standa, enn hún mætti augum á horfa. Á þig hafa geislar þessir safnast og orðið að sólu snillinnar, er lýsir öllum hnetti vorum, er hefir blásið sætum lífsanda í enn kalda marmara, og mun, þá er hún er gengin til viðar, — en þess æski jeg að það verði seint, já svo seint sem verða má! — leyfa sér eylíft norðurljós yfir Danaveldi, miklu fegra hinu, er fagnaði þér fyrir skömmu í Eyrarsundi, og boðaði bræðraþjóðum norðurlandanna komu þína. Það eru samt einkum vér, sem erum nánast tengdir við ætt þína, vér, sem störfum hér í sameiníngu að varðveizlu og víðfrægíngu minníngar forfeðranna og fornrita þeirra, er skíra oss frá ættbálki þínum og geyma spásagnir þær, sem nú rætast á þér, og þú lætur rætast. Enginn má heitar né einlæglegar enn vort félag taka undir ósk þá, sem nú er svo almenn: „Heill og- Heiður sé Thorvaldsen vorum!”

Kveðja og Þökk Íslendínga

til

Alberts Thorvaldsens.

I. Kveðja.

(Haustið 1838, þá er hann kom annað sinn frá Rómaborg til
Kaupmannahafnar.)

Í höfum norður
við himin gnæfir
eyja ísi skignd
og eldi þrúngin;
þar rís hin fagra
feðra þinna
móðurmold
úr marar skauti.

Fjöld sá hún frægra
fólkbetrínga,
vara þeim vizku
vant né snilli,
þó hefir engi
annarr sem þú,
frægðar geisli
yfir fold þá skinið.

Sæl þættist hún,
ef hún sjá mætti
yndi fegurst
augna sinna;
sæl þættist hún,
ef hún sjálf mætti
frægð þá fullþakka,
er hún fékk af þér.

Hverr hefir dýrra af drottni þegið
annarr og unnið
erindi þér?
veitti þér fulla
fegurð að skoða
himna höfundur,
heimi veittir þú.

Ein situr úti
yfir öldugeimi
fósturfold
feðra þinna,
hefir né eina
augum litið
lífmynd ljúfa,
er þú leiddir fram.

Vittu samt að þar
á vörum lifir
broshýrra barna
og blíðra meyja,
heitið heimfræga,
er heyrir hverr
móður margnefna
mögur í landi.

O! að þú mættir
augum leiða
landið loptháfa
og ljósbeltaða,
þar sem um grænar
grundir líða
elfur ísbláar
að ægi fram.

Þar er Heklufjall
og Hofsjökull,
Baldjökull, Bláfell
og Baulu tindur,
Hólmur, Hegranes
og Hlíðin góða,
þar sem enn byggja
ættmenn þínir.

Mundi þá hinn mikli
mögur Þorvaldar
kynland sitt kenna
og karlmannlegt þykja;
tign býr á tindum,
en traust í björgum,
fegurð í fjalldölum,
en í fossum afl.

Mundu þá sveinar
og meyjar bláeygar
Snælands hins snjókrýnda
snúast þér í móti,
frænda færandi
frægstum í heimi
barnslegar ástir,
sem beztar kynnu.

Og feður harðhentir
hraustra drengja,
og mæður málblíðar
munnhvítra snóta
blessa þann er bjó
börnum þeirra
fyrirmynd fegursta
frægðar að leita.

Og þó und sólu
suðurheima
eyðir þú æfi
að alföðurs vild,
ann þér um aldur
Ísafoldar
sonur og dóttir
meðan sær dunar

II. Þökk.

(Vorið 1839, þá er skírnarfontur Thorvaldsens kom til Reykjavíkur dómkirkju.)

„Ein situr úti
„yfír öldugeimi
„fósturfold
„feðra þinna,
„hefir né eina
„augum litið
„lífmynd ljúfa
„er þú leiddir fram.”

So kvað á hausti
hrímgrundar sjót,
kynlanda kærstum
þá er kveðju flutti,
vitandi víst
um vingjöf þína,
dulin hvað dveldi
dýrgrip á leið.

Nú hefir bætta
sá er bezt um kunni
eptirþrá
augna vorra;
sæmir því at sæma
þann er senda lét
vonar fyllíng
vorþökkum með.

Úngir og aldnir
andvirki frá
gángið að skoða í guðs musteri!
skín þar in helga
á höggnum steini —
ljóstær lífsbrunnur —
laug sáttmála.

Hverr hefir leiddar
fyrir líkams augu
myndir guðlegar
musterið í?
Hefji höfuð sín
híngað farinn
lýður, og líti
lotníngu með!

Sjáið hér fegursta
friðarmynd,
blíða Maríu
með barnið á skauti;
hallast að góðrar
guðsmóður knjám
úngur Jóhannes
og ástarblíður.

Sjáið ánni í
allra manna
lausnara ljúfan
og líknar skæran
skírn að skírast,
áður skepnu sína
guði vinni,
þá er glötuð var. 

Sjáið enn fremur
ástvin beztan
barnanna úngu,
er hann blessar þau;
„leyfið þeim”, segir
hinn líknarfulli,
„öllum hjá mér
„athvarfs að leita”.

Hverr sá í huga
svo helg tíðindi?
hverr lét þau stíga
af steininum fram?
Hverr hefir leiddar
fyrir líkams augu
myndir guðlegar
musterið í?

Hefji höfuð sín híngað farinn
lýður og lesi
letur á steini;
englar alskærir
og ástum bundnir
líða þar yfir, —
en letrið greinir:

„Risti smíð þessa
í Róm suður
Albert Thorvaldsen
fyrir árum tólf,
ættjörðu sinni
Ísalandi
gefandi hana
af góðum hug.”

Albert Thorvaldsen
ættjörðu gaf;
hve skal ættjörð hans
Alberti þakka?
Breiðar eru bárur
að borgum fram,
frændinn fjærlægur
feðra láði.

Þá væri launað,
ef þú líta mættir
ásján upplypta
úngrar móður,
þar sem grátglaður
guði færir
barn sitt bóndi
að brunni sáttmála.

Jónas Hallgrímsson.

General Comment

Dette er en trykt udgave af Magnus Hákonarson: Albert Thorvaldsens æfisaga, 1841 omhandlende Thorvaldsens liv og værk.

Archival Reference

M14

Other references

Subjects

Persons

Commentaries

 1. [Forfatterens note i teksten] 1) Eigi herma allir sama um það, hvar Albert sé borinn; sumir segja á Íslandi, aðrir í Kaupmannahöfn og enn aðrir á leiðinni milli Íslands og Danmerkur.

 2. [Forfatterens note i teksten] 2) Hann var það er Danir kalla „Billedskærer,” er táknar að hann hafi skorið í tré mannamyndir og dýra, og annað þesskonar, er opt má sjá á skipum.

 3. [Forfatterens note i teksten] 3) Gottskálk fæddist árið 1740 á Miklabæ í Blönduhlið, þar var Þorvaldur Gottskálksson faðir hans prestur; annan son áttu þau Karen er hét Ari, lærði hann gullsmíði í Kaupmannahöfn og dó ungur. Gottskálk dó í Kaupmannahöfn 1805.

 4. [Forfatterens note i teksten] 1) Hólmurinn (Holmen) nefnist staður sá, er allur herskipareiði Danakonúngs er á geymdur, og þar eru skipasmiðirnir að verki um daga.

 5. [Forfatterens note i teksten] 2) Hólmskirkja heitir krosskirkja sú, er sjómanna liðið á sókn að. Landherinn á og kirkju sér, og heitir hún Sebaotskirkja, er þó optast nefnd „Garnisons” eður setuliðskirkja.

 6. [Forfatterens note i teksten] 1) Sagna- eður atburðarmálari (Historiemaler) nefnist sá, er dregur upp atburði; dregur hann upp atburði úr mannkynssögunni, og sýnir mönnum hvernig hann ímyndi sér að mennirnir hafi verið, er þeir unnu verkið, og hvernig að því var farið; þesskonar uppdrætti má sjá á altaristöblum víða á Íslandi.

 7. [Forfatterens note i teksten] 1) Þar heiti þetta mun víðar sjást í sögu þessari, þá ætla eg hlýða að gjöra nú þegar grein fyrir því, svo eigi þurfi þess síðar. Það á að tákna íþrótt þá, er Danir nefna „Billedhuggerie” eður „BiIledhuggerkunst,” eptir þýðsku heiti, „Bildkunst.” Smíðarnar má greina í þrennt: líkneskjur eður heilmyndir, (Statuæ eður Statuer), lágmyndir (Basreliefs), og höfðamyndir (Buster eða Brystbilleðer). Líkneskjur eru mestar, og hafa þær optast eðlilegan vöxt manna eður dýra, en stundum eru þær meiri, og kallast þá risavaxnar. Lágmyndum má kalla að• upp sé hleypt, er þær sjást eigi nema hálfar og þó frá hvirfli til ilja, en leyna jafnan annarri hliðinni, brjósti eður baki. Höfðamyndir eru enar þriðju: Þær eru höfuð með hálsi, lítið eitt ofaná brjóst. Veit eg það, að bílætasmíði og myndastyttur er algengt í íslenzkum bókum, en hvorki bílæti né stytta er rétt Íslenzka að heldur.

 8. [Forfatterens note i teksten] 1) Til eru og ýmsar mannamyndir og uppdrættir, er Albert gjörði um þessar mundir, einnig myndir á bókum, til að mynda norrænu sögunum hans Suhms, á Thalíu Hasles, vinar Alberts, og skáldmæla tilraunum Rabekks háskólakennara; en eitt tel eg merkilegast, og er það andlitsmynd Jóns Eiríkssonar Konferensráðs, með fullkomnum vexti, er þá andlitsmynd þess Íslendings, er einna frægastur var um útlönd, þeirra er þá voru uppi, gjörð af þeim sem víðræmdastur hefir orðið síðan. Það er og enn merkilegt, að mynd þessi er úr íslenzkri gipsjarðartegund, og að vísu varð henni ekki betur varið; hafði Jón Eiríksson látið taka hana og ætlaði að koma því á, að Danir keyptu gips að Íslendíngum , svo ekki þyrftu aðrar þjóðir að taka þann hagnað frá ættjörðu hans. Dýrgripur þessi er á Íslandi, og á hann amtmaðurinn yfir vesturumdæminu, herra Bjarni þorsteinsson riddari.

 9. [Forfatterens note i teksten] 1) Hætt er við því, að lítið mundi hafa orðið úr Alberti, ef hann hefði ílengst í Kaupmannahöfn og ekki farið úr landi; við það kannast hann og sjálfur, er hann telur þann dag, er hann kom til Rómaborgar, merkilegastan allra lífdaga sinna, og svarar hann því jafnan, er menn spyrja hann um afmæli hans, að það muni hann ekki, en hitt viti hann, að hann hafi komið 8da dag Martsmánaðar til Rómaborgar.

 10. [Forfatterens note i teksten] 1) Gips er brennisteins-sýrð kalkjörð, og er það hentugt mjög til myndasmíða.

 11. [Forfatterens note i teksten] 1) Sekkína (Zechina) er gullpeningur. Páfasekkina, sem hér er umrætt, er á við 4 ríkisbánkadali danska og 3 skildinga betur.

 12. [Forfatterens note i teksten] 1) Löngu síðar kom Hope til Rómaborgar, og bauð Albert honum þá að taka við annarri líkneskju jafnmikilli, og hét honum því, að hún skyldi verða betur gjörð, þar honum tók nú ekki að líka Jason sjálfum, en Hope þág það ekki; sendi Albert honum síðan 1828 Jason, og tvo gripi aðra, ásamt myndum konu Hopes og dætra hans þriggja, allt úr marmara, og vottaði honum með því þakklæti sitt.

 13. [Forfatterens note i teksten] 2) Frúin átti bróður er Skubart hét, hafði Albert kynnst við hann árið 1804, er hann ferðaðist með Moltke Greifa til Nýborgar á Ítaliu, gjörði hann sér það til heilsubótar, því jafnan hefir loðað við hann kvilli sá, er hann fekk aðkenning af áður hann fór úr Kaupmannahöfn og hefir hann opt ollað honum þunglyndis. Í Nýborg hitti Albert Skúbart þenna og för með honum til Montenero, í grend við Livornó, þar bjó Skúbart og sat Albert hjá honum í miklu yfirlæti til vors 1805.

 14. [Forfatterens note i teksten] 1) Skírnarfonts þessa er getið í Sunnanp., í lsta árg. 110du bls., Fjöln. 4ða ári bls. 28—31, og mig minnir í Klausturp. Fonturinn er kominn til Kaupmannahafnar fyrir mörgum árum, og var hann geymdur í Karlottuborg ásamt fleirum smíðisgripum Alberts; þar fekk hverr að skoða hann sem vildi. Á hann eru höggnir þessir atburðir: Skírn Krists. María með barnið Jesús, og Jóhannes. Kristur blessar börnin. Þrír englar í lopti. Neðanundir englunum stendur þetta letur: OPUS HOC ROMAE FECIT ET ISLANDIAE TERRAE SIBI GENTILICIAE PIETATIS CAUSA DONÁVIT ALBERTUS THORVALDSEN A. MDCCCXXVII. Það er á Íslenzku: Grip þenna gjörði í Rómaborg og gaf Íslandi ættjörðu sinni í ræktarskyni, Albert Thorvaldsen árið 1827. Vera má, að sumum hafi ekki verið um, að sleppa dýrgripi þessum, en þegar Albert kom til Kaupmannahafnar um haustið 1838, og hann sá fontinn, furðaði hann á að hann skyldi standa þar, er hann ætlaði hann kominn til Íslands fyrir löngu, og fór hann þegar að gjöra gángskör að því, að hann irði sendur, og reit „rentukammeri” bréf um það; var síðan fonturinn sendur til Reykjavikur 1839, og er það eigi lítið fagnaðarefni Íslendingum, því vart mun landið nokkurntíma hafa eignast þvílíkan dýrgrip.

 15. [Forfatterens note i teksten] 1) Fjórum sinnum hefir Albert gjört merkisgrip þenna, og svo mikið þótti Rómverjum til hans koma, að þeir nefndu smiðinn fyrir hann lágmynda höfðingjann (Basrelieffets Patriarch).

 16. [Forfatterens note i teksten] 1) Sú var önnur orusta mest, er Napóleon beið af ósigur (1814), hin var í grend við Vaterló á Niðurlöndum, ári seinna.

 17. [Forfatterens note i teksten] 1) Þótt flestir munu skilja, að þetta sé vandamest, þá þykir samt ekki óþarfi að geta þess ef einhvorr kynni að vera líkur hefðarstúlkunni dönsku, er kom að Alberti þegar hann var í Kaupmannahöfn um árið, og sá hann hnoða leir i kyrnu; stúlkusképnan mælti: „Þetta gjörið þér nú ekki sjálfur þegar þér eruð í Rómaborg!?” hann svaraði eins einfaldlega og spurt var: „jeg segi yður það satt, að á þessu ríður mest!” 

 18. [Forfatterens note i teksten] 1) Á engu hefir Albert vandað sig eins og á líkneskju Krists; fyrst gjörði hann svo fimm leirmyndir hvorja eptir aðra, að hann braut allar, loks líkaði honum hin sjötta, og varð hann þá svo feginn, að hann kallaði upp og mælti: „nú er jeg búinn að ná því, svona skal það vera!“ Líkneskjan táknar Krist upprisinn, þegar hann birtist lærisveinunum samansöfnuðum og kveður þá með þessum orðum: „friður sé með yður!”

 19. [Forfatterens note i teksten] 1) Þegar Alberti var batnaður áverkinn, héldu vinir hans honum veizlu, ortu þá margir til hans smákvæði og vísur, ein vísan var svona :

  L´ islandico scultor! emulo a Fidia!
  Moja! dissi l’Invidia,
  La greca lnvidia. — Ma Giasone repente
  Surse dal freddo avello
  E grido: „Chi sia quello,
  „Ch’ a morte tragger possa un uomo tale,
  „Che, me effigiando, divento immortale?”

  Það er á íslenzku (lauslega snúið):

  Það mælti Öfund
  ill með Grikkjum
  Þú skalt feigur
  og fjöri týna,
  er af myndasmið
  alteins frægur
  ert og Fidías
  Íslendíngur!
  Kappinn Jason
  ur koldum steini
  reis þá hraustur,
  og röddu brýndi:
  „hvorr er svo djarfur
  að deyða þori
  „þann er mig fékk myndað?
  „svo mun hann æ lifa!”
 20. [Forfatterens note i teksten] 1) Svo nefni jeg „Optog” eða „Procession.” 

 21. [Forfatterens note i teksten] 1) um þær mundir er einnig ort hið fyrra af kvæðum þeim, sem prentuð eru aptanvið kver þetta.

 22. [Forfatterens note i teksten] 1) Kanóva hét myndasmiður rómverskur, dáinn fyrir nokkrum árum, hann telja margir jafnhagann Alberti á flest, einkum á líkneskjur (Statuer).

 23. [Forfatterens note i teksten] 1) Fornmenn þeir sem hafa dregið upp mynd Jón skírara, eða höggvið líkneskju hans, hafa látið hann halda á staf þessum, er þeir nefndu agnus dei- eður guðs-lambs-stafinn, á hann að tákna samband Jóns við Krist.

 24. [Forfatterens note i teksten] 1) Höfdamyndum er sleppt, er þær skipta mörgum hundruðum. Áratölurnar sýna aldur myndanna.

Last updated 19.11.2015